Umhverfisráðuneytið hefur sent Úrvinnslusjóði bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um stöðu mála, ráðstafanir og viðbrögð. Ríkisendurskoðun sé þá einnig með Úrvinnslusjóð til skoðunar og segir ráðherra að sest verði niður með framkvæmdastjóra og formanni stjórnar einnig. Tryggja þurfi að almenningur geti treyst því að plastið sem er flokkað skili sér í réttan farveg.
Tildrög málsins eru þau að í ljós kom að hafsjór af íslensku plasti fannst í vöruskemmu í Suður-Svíþjóð á dögunum. Sænska fyrirtækið Swerec hafði þá ekki komið plastinu sem sent var frá Íslandi í réttan farveg.
Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála, segir í samtali við mbl.is að ráðuneytið sé búið að senda bréf á Úrvinnslusjóð þar sem óskað er eftir nánari upplýsingum um stöðu mála, ráðstafanir sjóðsins vegna þessa og viðbrögð við málinu.
„Við áttum strax óformlegt samtal við framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs og formann stjórnar og svo hefur nú verið sent bréf þar sem formlega er óskað eftir nánari upplýsingum.“
Skyldur ráðstöfunaraðila þurfi að vera tryggðar
Guðlaugur segir að meðal þess sem kanna þurfi sé hvort meira plast komi til með að finnast sem ekki hefur fengið þá meðhöndlun sem lofað var af sænska fyrirtækinu. Þá sé einnig óskað eftir upplýsingum um þær ráðstafanir og úrbætur sem sjóðurinn hefur eða hyggst leggjast í vegna málsins til þess að gengið sé úr skugga um að skyldur ráðstöfunaraðila séu ávallt uppfylltar.
Hann segir að á fundi sem Úrvinnslusjóður hefur þegar átt með Swerec þá hafi fyrirtækið heitið að gera úttekt á magni plastsins og mögulegum leiðum til úrbóta í málinu. Guðlaugu segir stjórnarformann og framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs hafa farið fram á að fulltrúi sjóðsins fengi að vera viðstaddur úttektina, sem áformað er að fari fram í byrjun næsta mánaðar.
„Við þurfum að tryggja að kerfið sé þannig úr garði gert að ekki finnist á því vankantar sem þessi. Það er gífurlega mikilvægt að almenningur geti treyst því að plastið sem er flokkað skili sér í réttan farveg.“
Guðlaugur bendir þá einnig á að Ríkisendurskoðun sé með Úrvinnslusjóð til skoðunar og gera má ráð fyrir því að þetta mál verði tekið fyrir þar. „Við gerum þá einnig ráð fyrir að funda með Ríkisendurskoðun og sjá hvernig þessum málum fram vindur.“
Traust á kerfið grunnforsenda
Spurður út í ábyrgð Úrvinnslusjóðs og ríkisins á að fylgja því eftir að ráðstöfunaraðilar líkt og sænska fyrirtækið standi við sín loforð segir hann: „Stóra málið er og það er alveg ljóst að við þurfum að tryggja það að kerfið virki eins og skyldi. Við sjáum að svo er ekki núna og það þarf að bæta úr því og tryggja að svo verði.“
Hann segir Úrvinnslusjóð bera ábyrgð á því að kerfið og allir ferlar í kerfinu virki sem skyldi, en það hefur verið á þá leið að Úrvinnslusjóður hefur samið við þjónustuaðila og þjónustuaðilarnir við ráðstöfunaraðila, sem Úrvinnslusjóður samþykkir. Þá vinni Úrvinnslusjóður þegar að því að auka rekjanleika úrgangs allt meðhöndlunarferlið til endanlegrar ráðstöfunar. Ráðuneytið beri að sjálfsögðu eftirlitsskyldu með sjóðnum og því verði sinnt áfram.
Hann ítrekar þá að tryggja þurfi traust almennings á því að þessi mál séu í réttu fari. „fólk er að leggja á sig vinnu við að flokka til þess að það skili árangri og traust á fyrirkomulaginu er grunnforsenda þess að fólk haldi því áfram. En ég ítreka það að fyrirkomulagið verður að vera þannig sniðið að fólk geti treyst því og það er okkar nálgun á þetta mál.