Hækkaði útsvar í óþökk félaga sinna

Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi.
Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2022 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í dag. Bar þar til tíðinda að Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi studdi skatthækkunartillögur minnihlutans.

„Mér þykir sárt að fara á bakvið félaga mína en þetta er sannfæring mín og ég verð að fylgja henni,“ sagði Bjarni á fundinum.

Kosti sitt að halda uppi þjónustustigi við íbúa

Á fundinum samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarnes skattahækkun þar sem útsvarsprósenta hækkar úr 13,7% í 14,09%. 

Inntur viðbragða segir Bjarni ekki óþekkt að sjálfstæðismenn hækki skatta á Seltjarnarnesinu. Þörf sé á að styrkja fjárhagslega getu bæjarfélagsins til að takast á við þau stóru verkefni sem framundan eru.

„Bæjarráð ákvað í þarsíðustu viku að veita bæjarstjóra heimild til þess að taka lán upp á 1.100 milljónir, 400 milljónir á þessu ári og 700 á því næsta en það er sennilega vegna ærinna verkefna sem framundan eru. Það er fullt að gerast. Við erum t.d. að byggja sambýli sem verður opnað í febrúar 2023 og erum að hefja byggingu á nýjum leikskóla. Allt kostar þetta fjármuni sem við eigum ekki í sjóðum.“

Þá segir hann bæjarsjóð ekki eiga að safna í sjóði heldur nýta peningana sem komi inn til þess að þjónusta íbúa bæjarfélagsins með sem bestum hætti. Svo að það sé hægt þurfi aurarnir þó að vera til.

„Í grunnin held ég að flestir íbúar séu tilbúnir að borga einhverjum þúsund krónum meira til að halda uppi háu þjónustu stigi heldur en ekki. Það eru svona þau viðbrögð sem ég finn úti í feltinu og ekki bara frá pólitískum andstæðingum heldur frá góðum og gefnum sjálfstæðismönnum líka.“

Sé ekki bara bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna 

Spurður segir Bjarni engin áform uppi um að stofna nýjan lista með Karli Pétri Jónssyni, bæjarfulltrúa Viðreisnar á Seltjarnarnesi, sem samþykkti fjárhagsáætlunina einnig.

„Ég er ekki í krulli við einn eða neinn og lít ekki á að það sé klofningur þó það sé ágreiningur í jafn stóru og máli sem þessu. Menn hafa alveg verið ósammála áður en það sker sig vissulega úr þegar þeir eru ósammála í málum af þessari stærðargráðu þar sem verið er að tala um útsvarshækkun. Þá er eðlilegt að það sé skoðanamunur.“

Þá segist hann ekki aðeins vera bæjarfulltrúi kjósenda sjálfstæðisflokksins heldur sé hann bæjarfulltrúi allra íbúa á Seltjarnarnesi.

„Ég vil ekki taka einhverja flokkshagsmuni fram yfir hagsmuni íbúanna.“

Inntur eftir því segist Bjarni ekki vera búinn að ákveða hvort hann muni bjóða sig fram í næsta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem líklegast fer fram í febrúar á næsta ári.

„Ég hef frest til 10. janúar þannig ég þarf aðeins að fara bylta mér og hugsa þetta, hvernig ég ætla að haga mínum skrefum fram í tímann.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert