Hækkun samræmist ekki yfirlýsingu borgarstjóra

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og Eyþór Arnaldsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og Eyþór Arnaldsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ljósmyndir/mbl.is

Samgöngu- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í morgun tillögur að breytingum á gjaldsvæði bílastæða í Reykjavík. Oddviti Sjálfstæðismanna í borginni segir breytinguna nema 100% hækkun á gjaldi og hækkunin fari á skjön við fyrri yfirlýsingu borgarstjóra.

Um er að ræða þrjú svæði sem færð eru úr gjaldflokknum P2 og sett í P1 flokk. Núverandi verð í P2 flokk er 190 krónur á klukkutímann en í P1 er það 370 krónur.

Fram kemur í tillögunni að megin ástæða tilfærslunnar eða hækkunarinnar sé sú að verið sé að nýting bílastæða á svæðinu sé töluvert meiri en bílastæðahúsa í miðborginni. Með þessu sé því verið að hvetja bílaeigendur til þess að leggja frekar í húsunum.

Á skjön við yfirlýsingu borgarstjóra

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir afar einkennilegt að verið sé að ráðast í hækkanir á gjaldtöku borgarinnar í ljósi þess að borgarstjóri sagði í viðtali við Rúv í síðasta mánuði að ekki yrði gripið til gjaldskrárhækkana.

„Borgarstjóri fullyrðir í viðtali við ríkisfjölmiðil að ekki verði ráðist í gjaldskrárhækkanir. Svo eru nú bílastæði í miðborginni færð milli svæða svo verðið hækkar því sem nemur um 100%.“

Í bókun sinni vegna ákvörðunar ráðsins gefur hann þá einnig lítið fyrir það að verið sé að bera fyrir sig of mikilli eftirspurn eftir stæðunum. Reykjavíkurborg fækki bílastæðum árlega og því sé ekki um að ræða aukna eftirspurn.

Heimatilbúinn vandi með bílastæðin

„Verið er að búa til skort með því að fækka bílastæðum í borginni um mörg hundruð á ári. Það er markviss stefna borgarinnra. En á sama tíma er verið að bera það fyrir sig að það vanti bílastæði. Þetta er eins og ísbúð framleiði minni ís og hækki verð þar sem eftirspurnin er svo mikil, í stað þess að einfaldlega framleiða meiri ís.“

Hann segir ljóst að lausnin við vandanum liggi einfaldlega í því að hætta að fækka bílastæðum.  Hann segir að leyfa þurfi fólki að leggja í þau stæði sem til eru í stað þess að setja skilti og aðrar hindranir í stæðinn líkt og verið hefur. „Bílastæðin eru í útrýmingarhættu, þess vegna eru þau eftirsótt.“

Svo segir hann ekki hægt að benda á bílastæðahús við Hörpu sem lausn við vandanum. Á Íslandi sé allra veðra von og ekki sé sanngjarnt að leggja það á borgarbúa að labba langar leiðir í öllum veðráttum.

Borgarstjóri svari fyrir yfirlýsingu sína

Að lokum beinir hann spjótum sínum að borgarstjóra: „Í fyrsta lagi, hættum að fækka bílastæðum. Í öðru lagi, þetta er verðhækkun sem er gjörsamlega út úr korti. Og í þriðja lagi, sem ég tel alvarlegast, að borgarstjóri virðist ekki segja satt og rétt frá í viðtali við ríkisfjölmiðilinn. Hann þarf að svara fyrir það hvernig þessar hækkanir samræmast fyrri yfirlýsingum um að ekki verði ráðist í gjaldskrárhækkanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert