Hafi ráðstafað innheimtuverkefnum eigin þágu

Tveir stjórnendur Innheimtustofnunar voru sendir í leyfi um leið og …
Tveir stjórnendur Innheimtustofnunar voru sendir í leyfi um leið og ný stjórn var skipuð. Fullyrt er að annar mannanna hafi verið forstöðumaður stofnunarinnar á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Ný stjórn yfir Innheimtustofnun sveitarfélaga var skipuð á mánudag vegna þess að fráfarandi stjórn óskaði þess að stíga til hliðar. Tveir stjórnendur stofnunarinnar hafa verið sendir í leyfi í tengslum við úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi stofnunarinnar.

Nýja stjórnin tók ákvörðun um að mennirnir tveir yrðu sendir í leyfi svo að fara mætti yfir stöðuna, eins og það var orðað í fréttatilkynningu frá formanni nýrrar stjórnar, Aldísi Hilmarsdóttur.

Ríkisendurskoðun hafði verið falið að skoða rekstur Innheimtustofnunar og viðvörunarbjöllur virðast hafa hringt þegar erfiðlega gekk að fá fullnægjandi upplýsingar frá stofnuninni og var samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið fengið til að grípa til ráðstafana vegna málsins.

Ráðuneytið gekk hratt til verks

Ráðuneytið brást við með því að skipta út allri stjórninni, eins og fyrr segir, sem segja má að sé töluvert beint inngrip í samanburði við það sem almennt þekkist innan hins opinbera.

Í Bæjarins bestu, bæjarblaði Ísafjarðar, segir í dag að komið hafi upp við úttekt Ríkisendurskoðunar að svo virtist sem stjórnendurnir sem sendir voru í leyfi hafi ráðstafað innheimtuverkefnum til fyrirtækis í eigu annars þeirra. Það er sagt litið alvarlegum augum og að málið verði rannsakað til fulls.

Í Fréttablaðinu í dag er fullyrt að Jón Ingvar Pálsson, forstjóri Innheimtustofnunar, og Bragi Rúnar Axelsson, forstöðumaður stofnunarinnar á Ísafirði, séu þeir sem sendir voru í leyfi. Í samtali við blaðið hafði Jón Ingvar fátt að segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert