Víðir Sigurðsson, fréttastjóri íþrótta á Morgunblaðinu og mbl.is, var í gær heiðraður af Samtökum íþróttafréttamanna í sal Blaðamannafélags Íslands í Síðumúla 23.
Víðir hefur starfað sem íþróttafréttamaður í 40 ár og hefur hann verið meðlimur í Samtökum íþróttafréttamanna frá árinu 1981.
Hann er lengst starfandi íþróttafréttamaður landsins en fyrst þegar hann gekk í Samtök íþróttafréttamanna voru meðlimirnir sjö að honum meðtöldum. Í dag eru þeir 33 talsins.
Víðir hóf störf hjá Dagblaðinu 1. september 1981 sem íþróttafréttamaður en hefur einnig starfað á Þjóðviljanum og DV á sínum starfsferli.
Síðustu tvo áratugi hefur hann svo starfað á Morgunblaðinu en frá árinu 1981 hefur hann árlega gefið út bækur sínar Íslensk knattspyrna.
Fyrir fund Samtaka íþróttafréttamanna í gær mætti landsliðs- og knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Kári Árnason og afhenti Víði áritað eintak af Íslenskri knattspyrnu 2021 frá öllum leikmönnum Víkings úr Reykjavík en liðið varð bæði Íslands- og bikarmeistari á liðnu ári.