Kjarkur að hækka skatta rétt fyrir kosningar

Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar.
Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar. Ljósmynd/Viðreisn

Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi, segir það blasa við að skattahækkun á Seltjarnarnesi hafi reynst nauðsynleg ákvörðun enda hafi rekstur bæjarins verið ósjálfbær undanfarin ár. Hann segir bæjarfulltrúa jafnframt hafa sýnt talsverðan kjark að ráðast í þessar breytingar rétt fyrir kosningar.

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir næsta ár var samþykkt af bæjarstjórn á fundi í dag. Vakti mikla athygli að skattahækkunartillaga minnihlutans, sem kvað á um að útsvarsprósenta myndi hækka úr 13,7% í 14,09%, var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur. Ekki mátti því tæpara standa en minnihlutinn fékk sínu framgengt fyrir tilstilli atkvæðis frá bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna, Bjarna Torfa Álfþórssyni.

Aðspurður segir Karl Pétur atkvæðagreiðsluna ekki hafa verið skipulagða og að Bjarni Torfi hafi tekið ákvörðunina út frá sínum eigin forsendum. Honum þótti þó vænt um að „hinn reyndi sveitarstjórnarmaður“ hafi séð hvað þyrfti að gerast og greitt atkvæði í samræmi við það.

Skattahækkanir endurspegli ekki afstöðu Viðreisnar

Spurður hvort hægt sé að túlka afstöðu hans sem svo að Viðreisn sé almennt hlynnt skattahækkunum, segir Karl Pétur ekki svo vera. Hins vegar hafi ákvörðunin reynst nauðsynleg í þessu tilfelli þar sem reksturinn á Seltjarnarnesbæ hefur verið ósjálfbær undanfarin ár.

„Þegar að þú ert að tapa 708 milljón á rekstri A-hluta á einu kjörtímabili og áætlanir hafa staðist svo illa að það er alltaf 200 milljón króna neikvæður munur á áætlun og raun 2015 til 2020 þá þarftu bara að kunna að draga frá og leggja saman til þess að sjá það að þetta gengur ekki upp og reksturinn nálgast það að vera ósjálfbær.

Ef þú horfir líka bara á skuldahlutfall bæjarins hvernig það hefur breyst frá lok árs 2017 þá er það farið úr 80% í 142% og það er verið að taka skuldir til að borga niður rekstur. Það er líka ósjálfbært.“

Blasir við að nauðsynlegt hafi verið að hækka skatta

Þá segir hann afstöðu sína til skatta vera þá að þeir eigi að vera sem lægstir en þó með þeim hætti að þeir dugi fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Ef hallareksturinn reynist viðvarandi yfir lengri tíma þyrfti bærinn að skuldsetja ríkissjóð eða sveitarfélagið. Blasti við að skattahækkanirnar hafi reynst nauðsynlegar.

 „Hverjir eru tekjustofnar sveitarfélaganna? Það er útsvarið, það eru fasteignagjöldin og það er jöfnunarsjóður og svo eru það náttúrulega þjónustugjöldin. Þú getur ekki hækkað þau nema það sem nemur hækkun á vísitölu.

Það er algjörlega óljóst hvað jöfnunarsjóður lætur þig hafa. Fasteignagjöldin hafa reyndar hækkað mikið en samt sem áður er reksturinn viðkvæmur og þetta er bara það sem þurfti. Ég held að við höfum sýnt talsverðan kjark að gera þetta rétt fyrir kosningar.“

Ekki ómissandi

Spurður hvort hann hyggist leiða lista Viðreisnar á næsta kjörtímabili kveðst hann ekki búinn að gera það upp við sig hvort hann ætli sér að halda áfram í bæjarpólitík eður ei. Ætlar hann að taka sér tíma fram yfir áramót til að taka þá ákvörðun í þeim efnum.

„Það bara liggur fyrir þegar það liggur fyrir. Þetta eru búin að vera mjög skemmtileg fjögur ár og auðvitað eru mörg verkefni óunnin á Seltjarnarnesinu en það er líka nóg af fólki sem getur unnið þau. Ég er ekkert ómissandi í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert