Miklir möguleikar á Krýsuvíkursvæðinu

Mikill fjöldi ferðamanna fer um svæðið en bæta þarf aðstöðu.
Mikill fjöldi ferðamanna fer um svæðið en bæta þarf aðstöðu. mbl.is/Árni Sæberg

Uppbygging jarðhitavirkjunar í Krýsuvík er augljósasti kosturinn til að mæta fyrirséðum skorti á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu að mati Orra Björnssonar, formanns starfshóps á vegum Hafnarfjarðarbæjar um framtíðarnýtingu Krýsuvíkursvæðisins. Hópurinn skilaði nýverið af sér skýrslu í fimm liðum um möguleika á nýtingu á svæðinu.

„Við erum búin að vera að horfa á heildarmyndina og aðalatriðið er möguleikinn á að virkja þarna heitt vatn,“ segir Orri. Í skýrslu hópsins segir að rannsaka þurfi hagkvæmni uppbyggingar virkjunarsvæðis með það í huga að kanna arðsemi allt að 100 MW raforkuvers og allt að 300 MWth fyrir heitavatnsvirkjun. Lögð er áhersla á að ekki verði farið í frekari vinnu við virkjun nema að undangenginni ítarlegri kynningu á jákvæðum og neikvæðum áhrifum virkjunar fyrir bæjarbúa.

Orri Björnsson.
Orri Björnsson. Ljósmynd/Aðsend

Lengi hefur verið á teikniborðinu að virkja í Krýsuvík. HS Orka hefur rannsóknarleyfi á orkunýtingarmöguleikum þar. Forstjóri fyrirtækisins, Tómas Már Sigurðsson, sagði einmitt í viðtali við Morgunblaðið fyrir skemmstu að horft væri til Krýsuvíkur sem næsta nýtingarsvæðis og lýsti svæðinu sem mikilli auðlind.

„Næsta skref er að ganga frá nýtingarsamningi. Hafnarfjarðarbær og HS Orka þurfa að komast að samkomulagi um það hversu mikið HS Orka vill borga,“ segir Orri.

Starfshópurinn leggur einnig áherslu á byggð verði upp betri aðstaða fyrir ferðamenn, til að mynda við Krýsuvíkurbjarg. Laga þurfi veg og bílastæði og byggja útsýnispall svo gestir geti virt fyrir sér stórbrotið útsýnið og landslag við bjargbrúnina. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka