Samningur stjórnvalda og Ardian ekki gerður opinber

Samningurinn varðar leiðir til að tryggja að starfsemi Mílu samrýmist …
Samningurinn varðar leiðir til að tryggja að starfsemi Mílu samrýmist þjóðaröryggishagsmunum, eftir sölu til Ardian France. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningur íslenskra stjórnvalda við Símann hf., Mílu og Ardian France SA, um leiðir til að tryggja að starfsemi Mílu samrýmist þjóðaröryggishagsmunum, í kjölfar sölu Mílu til Ardian Fance, var samþykktur af ríkisstjórn í gær.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirritaði samninginn fyrir hönd ríkisins þar sem fram koma kvaðir vegna þjóðhagslega mikilvægra fjarskiptaneta Mílu, í samræmi við áherslur stjórnvalda.

Fram kemur í tilkynningu frá stjórnarráðinu að samningurinn verður ekki gerður opinber en í samningnum koma fram atriði er varða viðskiptahagsmuni Mílu.

Frestur til að lögfesta ákvæði

„Á gildistíma samningsins gefst stjórnvöldum tími til að lögfesta almenn ákvæði er varða þær kvaðir sem Míla undirgengst í samningnum. Í því sambandi má, auk frumvarps til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sem nú er til meðferðar á Alþingi, vísa til fyrirhugaðrar framlagningar frumvarps til nýrra heildarlaga um fjarskipti og fyrirhugaðs frumvarps til laga um rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis,“ segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu. 

Skýrsla starfshóps einnig leynileg

Samhliða viðræðum ráðuneyta við Símann hf. , Mílu og Ardian France SA var að störfum starfshópur fjögurra ráðuneyta sem fór fyrir upplýsingaöflun um hvort að salan á Mílu fæli í sér ógn við öryggi landsins eða allsherjarreglu í skilningi laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. 

Sú greining leiddi í ljós að erlendi fjárfestirinn sem slíkur er ekki talinn fela í sér ógn við öryggi landsins. Greinargerð starfshópsins verður ekki heldur gerð opinber en verða niðurstöður hennar kynntar nefndarmönnum þingnefnda sem hafa áðurgreind frumvörp til meðferðar, þ.e. frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert