Segir Bjarna hafa svikið kosningaloforð

Til vinstri er Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar og …
Til vinstri er Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar og til hægri er Bjarni Torfi Álfþórs­son, bæj­ar­full­trúi sjálf­stæðismanna á Seltjarn­ar­nesi. Samsett mynd

Ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar um að hækka útsvar er óskiljanleg að öllu leyti. Þetta segir Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar, í samtali við mbl.is.

Fjár­hags­áætl­un Seltjarn­ar­nes­bæj­ar fyr­ir árið 2022 var samþykkt í dag á fundi bæjarstjórnar. Samþykktu einnig fjórir bæjarfulltrúar af sjö skattahækkunartillögu minnihlutans sem kveður á um að útsvars­pró­senta hækk­i úr 13,7% í 14,09%.

Magnús var einn þeirra sem greiddi atkvæði gegn tillögunni en í bókun sem hann lagði fram á fundinum kemur fram að hækkun skatta á þessum tímapunkti sé svo mikil vitleysa að engu tali tekur. Detti engu sveitarfélagi slíkt í hug í ljósi ástandsins.

Meirihlutinn vissi ekki af áformum Bjarna Torfa

Sjálfur segist hann hafa verið mjög mótfallinn tillögu minnihlutans um útsvarshækkunina enda hafi meirihlutinn þegar tekið einróma ákvörðun um að reyna mæta þeim halla sem orðið hefur í rekstri sveitarfélagsins í kjölfar kórónuveirufaraldursins með öðrum leiðum en að hækka skatta.

„Við erum í fjórða sæti yfir meðalútsvar á íbúa í krónum talið í árbók sveitarfélaganna svo það eru vissulega mikil tækifæri í hagræðingu en við höfum að sjálfsögðu ekki verið að standa í neinu slíku í miðjum faraldri, þannig þetta er óskiljanlegt að öllu leyti.“

Þá segir hann það hafa komið sér verulega á óvart að Bjarni Torfi Álfþórs­son, bæj­ar­full­trúi sjálf­stæðismanna á Seltjarn­ar­nesi, hafi stutt tillögur minnihlutans um hækkun á útsvari, inntur eftir því.

„Hann var ekki búinn að segja neinum frá þessu. Við erum með meirihlutafundi þar sem við undirbúum hvernig við ætlum að afgreiða mál svo þetta var mjög óvænt, enda bókaði ég mjög hart á móti þessu.“

Segir Bjarna hafa stungið bæjarstjóra í bakið

Með því að leggja til hækkun útsvarsins hafi Bjarni svikið kosningaloforð sitt og farið á bakvið samherja sína í bæjarpólitíkinni, að sögn Magnúsar.

„Þetta er bara brot á kosningaloforði og hnífstunga í bakið á okkur og ekki síst fráfarandi bæjarstjóra sem er leiðtogi okkar og oddviti. Þetta er sérstaklega súrt því hún er að fara hætta og vill gera það með ákveðinni reisn sem hún á skilið, enda búin að standa sig gríðarlega vel. Hún lagði upp með að útsvarið héldist óbreytt en svo er niðurstaðan þessi. Þetta er algerlega fordæmalaust.“

Þá segir Magnús niðurstöðuna „gríðarleg vonbrigði“, ekki aðeins fyrir meirihlutann heldur sjálfstæðismenn alla.

„Manni fallast bara hendur. Þetta er með miklum ólíkindum og óskiljanleg vinnubrögð. Viðsnún­ing­ur­inn hef­ur ekki átt sér stað að fullu þannig þetta er al­ger­lega ótíma­bært. Reksturinn í hitteðfyrra var kominn í jafnvægi og í raun líka í fyrra, ef litið er framhjá Covidkostnaði og hækkun lífeyrisskuldbindingar. Þannig hækkuðu skatttekjur meira en launakostnaður og annar kostnaður og veltufé frá rekstri var sterkt, yfir 250 milljónir.

Bókun Magnúsar í heild sinni:

Hækkun skatta á íbúa á þessum tímapunkti er svo mikil vitleysa að engu tali tekur. Engu sveitarfélagi dettur slíkt í hug í ljósi ástandsins. Hjá minnihlutanum kveður við sama tóm og venjulega, hækkun skatta á að leysa allan vanda. Þrátt fyrir það er útsvar á hvern Seltirning eitt það hæsta á landinu. Jafnframt blasa við tækifæri til hagræðingar áður en hækka þurfi skatta. Nýtt er þó að sjá fulltrúa meirihlutans, Bjarna Torfa Álfþórsson, svíkja kjósendur Sjálfstæðisflokksins með þessum hætti og um leið stinga samherja sína í bakið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert