Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ríkið þurfa gera betur í að stytta biðlista vegna geðheilbrigðisþjónustu og taka þurfi ástandinu með alvarlegum augum.
Í gær var tilkynnt um að Landspítalinn þyrfti að loka tíu legurýmum á Kleppi vegna manneklu.
„Sjálfsvígum fjölgar ár frá ári. Þeir sem eru í sjálfsvígshættu koma að lokuðum dyrum. Á annað þúsund börn eru að bíða eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu.
Á síðasta ári tóku 46 einstaklingar hér á landi líf sitt. Ef við værum að horfa á viðlíka mannfall í bílslysum, vegna drukknunar eða að völdum Covid-19, þá væri samfélagið á hliðinni. Það væru allir fjölmiðlar væru með míkrófóninn í andlitinu á heilbrigðisráðherra til þess að spyrja hvernig ætti að bregðast við.
Getur það verið að fordómar okkar gagnvart þeim sem eru að glíma við geðrænar áskoranir séu svona djúpstæðar að við kippum okkur ekki við þetta neyðarástand,“ sagði Helga Vala í umræðum um störf þingsins í dag.