Vara við dýrkeyptum netviðskiptum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við vörusvikum í netviðskiptum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við vörusvikum í netviðskiptum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við netsvindlum í bílaviðskiptum, vinnuvélum og dýrum íhlutum í færslu á facebook-síðu sinni og bendir á að á nú séu svindlararnir farnir að koma sér fyrir á viðurkenndum sölusíðum erlendis.

Lögreglan segir svindlara falsa skráningar og setja upp heimasíður til að ljá svikum sínum trúverðugleika og bjóða vörur á þessum síðum. Þá hafi þeir stolið myndunum sem fylgja af öðrum síðum.

„Gefin eru öll góð fyrirheit en um leið og greiðsla hefur borist þeim þá hverfa þeir og peningarnir,“ segir í færslunni.

Tjón frá 2,5 milljónum upp í 10 milljónir 

Þá segir að algengt tjón í svona málum sé frá 2,5 milljónum og upp í 10 milljónir og því ljóst að svindlararnir geta náð til sín miklum fjármunum á þennan hátt.

Að sögn lögreglunnar liggur vandinn í því að glæpasamtök eru farin að leggja vandaða vinnu í svindl af þessum toga. Lögreglan biður því fólk að sýna tortryggni sem í dag sé að ganga út frá því að það sem er á netinu sé svindl þar til grandvar kaupandi viti annað.

Lögreglan bendir á heimasíðuna Whois en þar má sjá ýmsar upplýsingar um skráningu sölusíða. Hún bendir einnig á að það borgi sig að leita að umsögnum á netinu.

„Þetta eru allt ágæt atriði til að hafa í huga. En ef þið eruð að eiga viðskipti við einhvern í fyrsta sinn eða að viðskiptaaðili vill fá peninga á nýjan reikning þá eru það hættumerki. Ef þið eruð í samstarfi við aðra, spyrjist þá líka fyrir um áreiðanleika. Gerið sem mest til að sannfæra ykkur um hvort að um er að ræða raunverulegt fyrirtæki eða svindl,“ segir í færslunni.

Lögreglan biður þá sem sjá eitthvað grunsamlegt að senda póst á abendingar@lrh.is eða cybercrime@lrh.is.

Sjá má færslu lögreglunnar í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert