50% vör við rangar upplýsingar eða falsfréttir

Formenn stjórnmálaflokkanna í sjónvarpssal.
Formenn stjórnmálaflokkanna í sjónvarpssal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn af hverjum tveimur varð var við rangar upplýsingar eða falsfréttir í aðdraganda alþingiskosninganna á Íslandi í september á þessu ári. Þar af sögðust 11% þátttakenda hafa orðið vör við slíkar upplýsingar oft á dag síðustu 30 dagana fyrir kosningar.

Af þeim sem sögðust hafa orðið vör við falsfréttir eða rangar upplýsingar sagðist rúmlega helmingur, eða 52,2%, telja að ákveðinn stjórnmálaflokkur hafi borið ábyrgð á þeim. Kjósendur ríkisstjórnarflokkana (Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokks) voru ólíklegastir til að hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu í aðdraganda alþingiskosninga 2021. Skýrslan byggir á niðurstöðum könnunar Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd sem lögð var fyrir dagana eftir kosningar.

Kjósendur ríkisstjórnarflokkana (Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokks) voru …
Kjósendur ríkisstjórnarflokkana (Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokks) voru ólíklegastir til að hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjö af hverjum tíu sáu falsfréttir á Facebook

Af þeim sem urðu vör við rangar upplýsingar eða falsfréttir í aðdraganda kosninganna sögðust 72,2% þeirra hafa séð slíkar upplýsingar á Facebook, 32,3% sögðust hafa séð slíkt á ritstýrðum netmiðlum, 27,8% í sjónvarpi, 26,3% í ritstýrðum prentmiðlum og 22,3% í útvarpi. Þá sögðust 15,3% hafa séð rangar upplýsingar eða falsfréttir á Instagram, 14,6% á Twitter, 10,5% á YouTube, 5,3% á TikTok, 5% á samskiptamiðli á borð við Messenger eða WhatsApp, 4,7% í hlaðvarpi og 2,9% á Snapchat, segir í umfjöllun Fjölmiðlanefndar. 

Af þeim sem sögðust hafa orðið vör við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna sagðist rúmlega helmingur, eða 52,2%, telja að ákveðinn stjórnmálaflokkur hafi borið ábyrgð á þeim. Þá töldu 29,1% að ákveðinn íslenskur fjölmiðill hafi borið ábyrgð á upplýsingunum og 25,5% töldu að ákveðinn stjórnmálamaður hafi borið ábyrgð á þeim. Aðeins 2,2% þeirra sem svöruðu töldu að erlendur aðili hafi borið ábyrgð á upplýsingunum.

Fólk sem kaus ríkisstjórnarflokkana var ólíklegast til að hafa orðið vart við falsfréttir eða rangar upplýsingar

Þátttakendur í könnuninni sem sögðust kjósa ríkisstjórnarflokkana (Sjálfstæðisflokk, Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og Framsóknarflokk) voru ólíklegastir til að hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna; 70,2% af stuðningsmönnum VG, 63,4% af stuðningsmönnum Framsóknarflokksins og 61,8% af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins kvaðst ekki hafa orðið vart við falsfréttir eða rangar upplýsingar tengdar kosningunum í aðdraganda þeirra. Stuðningsmenn Viðreisnar og Sósíalistaflokksins voru líklegastir til að hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna en 37% af stuðningsmönnum Sósíalistaflokksins og 36% af stuðningsmönnum Viðreisnar sögðust aldrei hafa orðið varir við slíkar upplýsingar. Þá sögðust 22,5% af stuðningsmönnum Flokks fólksins, 18,3% stuðningsmanna Pírata og 18,5% stuðningsmanna Miðflokksins hafa tekið eftir falsfréttum eða röngum upplýsingum tengdum kosningunum oft á dag í aðdraganda kosninganna, að því er fjölmiðlanefnd greinir frá. 

Misjafn skilningur á því hvað hugtökin falsfréttir og rangar upplýsingar fela í sér

Í spurningakönnuninni var spurt um það hvaða röngu upplýsingar eða falsfréttir þátttakendur hefðu orðið varir við í aðdraganda alþingiskosninganna. Af svörum þeirra sem töldu sig hafa séð rangar upplýsingar eða falsfréttir má sjá að einhverjir töldu pólitískar staðhæfingar sem þeir voru ósammála til rangra upplýsinga eða falsfrétta. Við túlkun á niðurstöðum könnunarinnar þarf því að hafa í huga að skilningur þátttakenda á þeim hugtökum sem liggja könnuninni til grundvallar hafi hugsanlega verið ólíkur. Einhverjir virtust þannig hafa annan skilning á því hvað hugtökin „rangar upplýsingar“ og „falsfréttir“ fela í sér en aðrir þátttakendur. Hugsanlegt er að þetta skýri að einhverju leyti þá niðurstöðu könnunarinnar að meirihluti þátttakenda telji ákveðinn stjórnmálaflokk hafa borið ábyrgð á falsfréttum og röngum upplýsingum.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Öll gögn úr könnuninni má nálgast hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka