Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir frekar auðvelt að sannreyna að efni í bók hans, Eyjan hans Ingólfs, sé unnið úr Landnámu en ekki bók Bergsveins Birgissonar; Leitinni að svarta víkingnum.
Þetta kemur fram í færslu Ásgeirs á Facebook þar sem hann svarar pistli Bergsveins. Sá síðarnefndi hélt því fram að þrátt fyrir að hans bók hafi hvergi verið nefnd á nafn séu litlar opinberanir sem sýni hvaða bók höfundur hefur haft á borði sínu við lestur á Landmámabók.
„Mætti hér sem dæmi nefna hvað Ásgeir skrifar um Hámund heljarskinn: «Hann fékk Örn, frænda sinn, til sín en hann hafði numið Arnarfjörð á Vestfjörðum … Örn … kom til Eyjafjarðar til að vinna með frænda sínum að héraðsskipan» (bls. 148). Hvergi kemur fram í Landnámabók né öðrum miðaldaheimildum að Örn sé frændi Hámundar eða Geirmundar heljarskinns,“ segir í grein Bergsveins.
Ásgeir segir auðvelt að svara þessu:
„Í Landnámu segir „Örn hét maður ágætur; hann var frændi Geirmundar heljarskinns; hann fór af Rogalandi fyrir ofríki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði svo vítt sem hann vildi,“ skrifar Ásgeir og heldur áfram:
„Örn spurði til Hámundar heljarskinns frænda síns norður í Eyjafirði, og fýstist hann þangað; því seldi hann Áni rauðfeld lönd öll milli Langaness og Stapa,“ stendur í færslu Ásgeir þar sem vitnað er í Landnámu.