Fathöllin Nebraska opnar dyr sínar í kvöld

Kjartan og Guðmundur í verslunarhúsnæði Nebraska sem opnar í kvöld.
Kjartan og Guðmundur í verslunarhúsnæði Nebraska sem opnar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fata-, hönnunar- og lífstílsverslunin, veitingastaðurinn og vínbarinn, eða í einu orði Fathöllin  Nebraska opnar dyr sínar í kvöld í nýju verslunarhúsnæði við Barónsstíg í miðbæ Reykjavíkur. 

Hugmyndin á bak við Nebraska varð til út frá því að vilja meiri stemmningu inn í verslanir. 

Í Nebraska verður hægt að versla fatnað frá öllum heimshornum sem og íslenska hönnun, veitingastaður og vínbar og lífstílsverslun þar sem síðar meir má gera ráð fyrir að hægt verði að kaupa keramik og aðra heimilismuni, list og jafnvel húsgögn.

Á bak við staðinn standa Guðmundur Jörundsson, fatahönnuður betur þekktur undir nafni hönnunar sinnar Jör, Benedikt Andrason, fatahönnuður og Kjartan Óli Guðmundsson, matreiðslumaður og vöruhönnuður. 

Fatahönnunin sem verður til sölu er alls staðar að úr heiminum frá til dæmis frá Suður-Kóreu, Hawaii, Þýskalandi, Svíþjóð, Íslandi og víðar. Hönnun Jör verður til sölu í Nebraska og einungis í Nebraska. 

Kjartan Óli Guðmundsson, matreiðslumaður og vöruhönnuður og Guðmundur Jör er …
Kjartan Óli Guðmundsson, matreiðslumaður og vöruhönnuður og Guðmundur Jör er fatahönnuður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verslanir geti verið félagsmiðstöðvar

„Við vildum ýta undir þá stemmningu að verslanir geti verið félagsmiðstöðvar og í leiðinni halda enn betur utan um kúnnahópinn og veita honum öflugri og víðtækari þjónustu,“ segir Benedikt og útskýrir að hugmyndin eigi sér ekki fyrirmynd annars staðar heldur sé algjörlega ný á nálinni. 

Hugmyndin hafi ekki verið fatabúð sem vatt upp á sig heldur hafi hugmyndin alltaf verið að fara í útvíkkaða hugmynd af lífstílsverslun.

Verkefnaskipting á milli þremenninganna er ekki skýr, fyrir utan að Kjartan sér um útfærslu á matseðli og því sem kemur að matseld og Guðmundur og Benedikt velja fatahönnun inn í verslunina. Allir eru þeir með listrænan bakgrunn sem skilar sér á einn eða annan hátt í verkefnið.

„Nema kannski að mér verður líklega ekki hleypt í eldhúsið, í mesta lagi í uppvaskið,“ segir Guðmundur. 

„Það er margt við fatabransann og tísku sem stíft. Fólki finnst ekki endilega þægilegt að koma inn í fataverslanir. Það er eitthvað sem við reynum að mæta, að það sé afslappaðra andrúmsloft í kringum mat og vín“ heldur Guðmundur áfram til að útskýra hugmyndina. 

Benedikt tekur í sama streng: „Ef þú labbar inn í fataverslun líður fólki eins og það sé pressa að taka ákvörðun, hérna á stað sem er meira en fataverslun ætti það ekki að vera.“

Fylltu gám í Hollandi

Þegar blaðamanni bar að garði í verslunarhúsnæði Nebraska var byggingarvinna í fullum gangi og undirbúningur langt kominn. Athygli vakti nokkuð magn húsgögnum sem virtust í eldra lagi, hrátt iðnaðarútlit í bland við fallega bólstraða sófa.

Mikil vinna hefur verið lögð í að ná fram útlitinu og fór Benedikt meðal annars til Hollands og fyllt gám af húsgögnum. „Okkur fannst mjög mikilvægt að hafa húsgögn með sál,“ segir Benedikt.

Guðmundur segir að í hönnun sé oft áhugaverðast þegar andstæður mætast. „Það er það sem við erum að gera hér. Húnæðið er hrátt, köld steypa í bland við hlý og gömul húsgögn. Manni þarf að líða vel hérna inni.

Benedikt segir að þeir séu eining opnir fyrir mögulegri sölu á húsgögnunum síðar meir.

Hann var ekki lengi að svara þegar spurt var hvort að list yrði á veggjunum „Já. Algjörlega,“ svaraði Benedikt um hæl. „Það er ekki enn útfært en skemmtilegast væri að vera í samstarfi með listamönnum í hverjum mánuði, og jafnvel vera með prent verk í sölu.“

Benedikt kemur sjálfur með prentlista bakgrunn og vill halda í það með einum eða öðrum hætti. „Það er mjög mikilvægt að hlúa að grasrótinni, það er okkar bakland.“

„Bara umfram allt góð vín“

Kjartan útskýrir að fókusinn verður á vín á barnum, einhverjir bjórar og einfaldir kokteilar í boði eða aðallega vín.

„Bara umfram allt góð vín, svarar Kjartan, spurður hvort að áhersla sé á einhver lönd, innflytjanda eða tegund af vínum. Bæði náttúruvín og venjuleg, stór skali, frá fínum og í ódýr, en alltaf góð. Hugmyndin er að hafa listann róterandi.

Að sama skapi gerir hann ráð fyrir að áhersla verði á léttum réttum sem passi vel með víni en líka verði stærri réttir á matseðli, svo að óhætt sé að mæta svangur. Veitingastaðurinn opnar þó ekki strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál