Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir biðlar til fólks að gæta að sóttvörnum til þess að mögulegt sé að koma í veg fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir fyrir jól. Núverandi reglugerð rennur út 22. desember næstkomandi. Faraldurinn er á uppleið og segir Þórólfur að líklega sé ástæðan fyrir því sú að mikið „rót“ sé á fólki og að viðburðir séu haldnir þar sem sóttvörnum sé ekki viðhaldið.
„Það er fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun, sérstaklega ef við horfum til þess hvernig þetta hefur þróast á hinum Norðurlöndunum þar sem þetta er að rjúka upp í miklum veldisvexti,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
171 smit greindist innanlands í gær. Sem stendur mega einungis 50 manns koma saman nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að gestir fari í hraðpróf fyrir þá viðburði. Í þeim tilvikum mega 500 manns koma saman. Þórólfur segir að hann hafi vonast til þess að aðgerðirnar myndu hafa jákvæð áhrif á faraldurinn, þ.e. senda smitbylgjuna niður.
„En það gerðist ekki og það er alveg greinilegt að það hefur eitthvað farið úrskeiðis síðustu dagana,“ segir Þórólfur.
Svo þessar aðgerðir eru ekki að skila því sem þyrfti?
„Nei, þær eru ekki að gera það. Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að það er mikið rót á fólki á þessum tíma, fólk er á ferðinni og það er mikil blöndun. Við fáum fréttir af ýmsum viðburðum og samkomum þar sem fólk kemur saman og það er greinilega ekki verið að viðhafa sóttvarnir. Það klárlega getur stuðlað að því að útbreiðslan sé að aukast,“ segir Þórólfur og bætir við:
„Margir af þeim sem eru að greinast eru börn og það er náttúrulega líka mikið að gerast í kringum skólana í sambandi við jólin.“
Erum við að tala um einhver sóttvarnalagabrot hvað varðar þessa viðburði?
„Ég veit ekki hvernig maður á að flokka það. Það eru samkomur sem maður heyrir um þar sem mikið vín er haft um hönd og mikið ráp á fólki, grímur ekki notaðar. Við vitum að þegar mikill samgangur er á fólki er fólk að blandast mikið í hólfum þar sem eru mörg hundruð manns, þá aukast smitlíkur, jafnvel þó fólk hafi farið í hraðpróf.“
Er þá hægt að tengja mörg smitanna undanfarið við slíka viðburði?
„50% af þeim smitum sem eru að greinast inni í sóttkví en hin utan. Fólk er mikið á ferðinni og það er erfitt að segja hvar nákvæmlega smitið varð,“ segir Þórólfur.
Er útlit fyrir að setja þurfi á frekari takmarkanir fyrir jólin?
„Það er ekki komið í ljós enn þá. Ég þarf aðeins að sjá hvað er að gerast núna og síðustu tvo dagana hefur þetta verið upp á við. Mér finnst við þurfa að hafa áhyggjur af því þegar við höfum í huga hversu mikið kerfið okkar þolir. Ég vil bara benda á það sem er að gerast í Noregi og Danmörku, þróunin þar er mjög slæm, menn hafa verulegar áhyggjur og eru með hertar aðgerðir í gangi þar.“
13 manns liggja nú á Landspítala vegna Covid-19. Eru það nokkuð færri en hefur verið.
„Það segir sáralítið vegna þess að spítalinn er ekki að sjá aukningu á innlögnum hjá sér fyrr en um það bil viku á eftir þeirri aukningu sem verður í samfélaginu. Það tekur eina til vikur að skila sér inn á spítalann,“ segir Þórólfur.
Hann bendir á að smit undanfarið hafi fyrst og fremst orðið til hjá óbólusettum börnum og óbólusettum fullorðnum.
„Þetta er fyrst og fremst hjá óbólusettu fólki. Enn sem komið er sjáum við að jafnvel tvær sprautur eru að vernda alveg þokkalega vel gegn smiti og bætir örvunarskammturinn verulega við þá vörn.“
Þórólfur segir örvunarskammtinn án efa hjálpa í baráttunni gegn Delta-afbrigðinu og vonandi Ómíkron-afbrigðinu líka.
„Það eru upplýsingar um að þriðja sprautan muni vernda þokkalega vel gegn Ómíkron en við vitum ekki enn þá nákvæmlega hversu vel,“ segir Þórólfur. Tvær sprautur af bóluefni vernda fólk „ekki sérstaklega vel gegn Ómíkron.“
Af þessum sökum hvetur Þórólfur alla til þess að fara í bólusetningu og í örvunarskammtinn hafi þeir fengið boð um slíkt.
Bólusetning ungra barna hefst eftir áramót.
„Ég vil bara ítreka að ávinningurinn af bólusetningum barna er margfaldur á við áhættuna,“ segir Þórólfur sem telur bólusetninguna bæði mikilvæga til þess að vernda heilsu barnanna og draga úr þeirri truflun sem verður á skólastarfi þeirra þegar upp koma smit.
„Menn tala stundum eins og Covid geti ekki valdið alvarlegum veikindum hjá börnum en það er ekki rétt. Tölur frá Bandaríkjunum og Evrópu sýna að það er mikill fjöldi sem þarf að leggjast inn og þá hafa börn jafnvel látist vegna Covid.“
Í kringum 50 manns hafa nú smitast af Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hérlendis. Því er enn sem komið er ekki hægt að kenna því afbrigði um að faraldurinn sé á uppleið.
„En það er greinilegt að Ómíkron er miklu meira smitandi en Delta og ef það bætist við förum við að sjá enn þá meiri aukningu, ef útbreiðslan á því verður miklu meiri,“ segir Þórólfur. hann telur óhjákvæmilegt að Ómíkronið muni verða útbreitt í samfélaginu.
Enn sem komið er hefur enginn sem smitaður er af Ómíkron hérlendis orðið alvarlega veikur.
„Smithæfni Ómíkron-afbrigðisins er töluvert meiri en af Delta-afbrigðinu. Ómíkron-afbrigðið er sennilega almennt séð að valda vægari einkennum en Delta. Það þýðir samt sem áður ekki það að enginn muni veikjast alvarlega af Ómíkron. Það eru kannski hlutfallslega færri sem veikjast alvarlega en ef útbreiðslan verður mjög mikil getur fjöldinn orðið mjög mikill eftir sem áður sem veikist alvarlega,“ segir Þórólfur.
Hann telur ekki ráðlegt að einblína á innlagnir á spítala þegar hugsað er um álagið á heilbrigðiskerfið vegna Covid-19.
„Það er mjög mikið álag til dæmis á Covid-göngudeildina. Þeir eru að fylgja mjög mörgum, jafnvel fólki sem er kallað upp á göngudeildina á hverjum degi þar sem það fær alls kyns lyf og vökva í æð. Það kemur ekki fram í innlagnartölunum. Þetta er ekki bara spurning um innlagnir. Þó það sé veikasta fólkið sem leggst inn þá er fullt af öðrum sem eru mjög veikir og þurfa náið eftirlit af hálfu spítalans,“ segir Þórólfur.
Hann hugsar nú um næstu skref í aðgerðum.
„Það er ekki komið minnisblað frá mér. En það kemur fljótlega,“ segir Þórólfur. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að hvetja alla til þess að viðhafa sýkingavarnir og sóttvarnir til þess að það þurfi ekki að fara í einhverjar hertar aðgerðir.“