Hefur dregið úr trausti almennings

Plast.
Plast. mbl.is/Stefán Einar Stefánsson

Fregnir um að íslenskt plast hafi verið geymt í vöruhúsi í Svíþjóð án þess að það hafi komist í réttan farveg hafa dregið mjög úr trausti almennings á Íslandi til mikilvægis þess að flokka plast.

Þetta kemur fram í bréfi stjórnar Úrvinnslusjóðs til Swerec þar sem þess er krafist að sænska fyrirtækið sjái til þess að sá hluti plasts frá Íslands sem hefur verið geymdur í vöruhúsinu fari í þann farveg sem íslensku þjónustaðilarnir Terra og Íslenska gámafélagið sömdu um við það á sínum tíma.

„Reynt hefur verið að byggja upp traust á meðal almennings á Íslandi þess efnis að flokkun plasts þjóni ákveðnum tilgangi og leiði til þess að úrgangurinn verði endurunninn eða unnið verði úr honum eins mikið og mögulegt er. Þessar fréttir hafa dregið alvarlega úr þessu trausti,” segir í bréfinu, sem mbl.is hefur undir höndum.

Þar segir einnig: „Það er afar óheppilegt að hluti af þessum plastúrgangi hafi verið fluttur til þriðja aðila án þess að upphaflegur móttakandi í Svíþjóð, Swerec i Swerige AB, hafi gripið til viðeigandi ráðstafana til að sannreyna að móttakendur hafi starfað í anda sýnar Swerec um „Hreina Svíþjóð”.

Plast er gríðarlega mengandi fyrir umhverfi og lífríki.
Plast er gríðarlega mengandi fyrir umhverfi og lífríki. AFP

Fram kemur einnig að stjórn Úrvinnslusjóðs ætli að endurskoða samstarf sitt við Swerec, en stjórnin fundaði í morgun vegna málsins, að sögn Magnúsar Jóhannessonar, stjórnarformanns sjóðsins.

Greint var fyrst frá geymslu plastsins í ít­ar­legri grein Stund­ar­inn­ar þar sem blaðamaður þeirra ásamt ljós­mynd­ara fann ís­lenskt plast í því sem líkja má við haf­sjó af plasti í vöru­skemmu í Suður-Svíþjóð. Þegar höfðu ís­lensk­ir neyt­end­ur og fyr­ir­tæki borgað fyr­ir end­ur­vinnslu á plast­inu en fyr­ir­tækið sem tók við því, Sw­erec, kom því ekki í rétt­an far­veg.

Málið kannað eftir áramót

Að sögn Magnúsar ætlar Swerec að komast að því strax eftir áramót hversu mikið af íslenska plastinu sem var sent til Svíþjóðar árið 2016 er í vöruskemmu þess. 

Fulltrúi frá Úrvinnslusjóði verður á staðnum þegar þetta verður rannsakað. Einnig vonast sjóðurinn til að fulltrúar íslensku þjónustufyrirtækjanna, Terra og Íslenska gámafélagsins, sem sendu plastið út verði með fulltrúa á staðnum.

„Við gengum frá bréfi sem er farið til Swerec þar sem við gerum kröfu um það að Swerec gangi í þetta mál og komist að því hvað er raunverulega mikið af plasti í þessari vöruskemmu,” segir Magnús.

Á fundinum var einnig rætt um nauðsyn þess að skerpa á skyldum ráðstöfunaraðila erlendis þannig að þeir þurfi að upplýsa sjóðinn betur um afdrif úrgangs sem fer frá Íslandi til vinnslu erlendis.

Sömuleiðis er sjóðurinn að undirbúa sig vegna lagabreytinga sem eiga að koma til fullra framkvæmda eftir ár. Snúast þær um að þeir úrgangsflokkar sem eru hjá Úrvinnslusjóði falli sem best inn í hringrásarhagkerfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert