Liggur ekki fyrir hvort lög hafi verið brotin

Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef það kemur eitthvað saknæmt í ljós verður það kært til lögreglu, að sögn Aldísar Hilmarsdóttur formanns nýrrar stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaganna. 

Ríkisendurskoðandi er enn með mál Innheimtustofnunar sveitarfélaganna til skoðunar eftir að erfiðlega gekk að fá fullnægjandi upplýsingar úr hendi stofnunarinnar. 

Aldís Hilmarsdóttir, formaður nýrrar stjórnar innheimtustofnunar sveitarfélaga.
Aldís Hilmarsdóttir, formaður nýrrar stjórnar innheimtustofnunar sveitarfélaga. mbl.is/Árni Sæberg

Skýrsla væntanleg

„Við erum bara að vinna að úttekt á fýsileika þess að verkefni Innheimtustofnunar verði fært yfir til ríkisins, það er upprunalega verkefnið sem við höfðum,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi. 

Þá kom upp tilefni til að kanna þætti í rekstri stofnunarinnar og hvort hann hafi verið í samræmi við lög. 

„Það liggur ekkert fyrir hvort ákvæði laga hafi verið brotin, við erum að vinna í þessu máli og þegar það er langt komið munum við senda hlutaðeigandi aðilum það til umsagnar og svo munum við auðvitað birta skýrslu um þetta.“

Skýrslan mun þó fyrst og fremst snúa að fýsileika yfirfærslu verkefna stofnunarinnar. 

Ný stjórn og tveir stjórnendur sendir í leyfi

Greint hefur verið frá því að úttekt Ríkisendurskoðunar hafi vakið grun um að tveir stjórnendur stofnunarinnar, Bragi Rúnar Axelsson og Jón Ingvar Pálsson, hafi ráðstafað innheimtuverkefnum í þágu annars þeirra. 

Þegar ný stjórn tók til starfa var byrjað á því að senda mennina tvo í leyfi meðan málið væri í rannsókn en að öðru leyti aðhefst stjórnin ekkert sérstaklega í þessu máli heldur einbeitir sé að því að búa vel að daglegum rekstri og verkefnum Innheimtustofnunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert