Magnús Örn Guðmundsson, viðskiptafræðingur, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs, ætlar að bjóða sig fram í oddvitasætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi sem fyrirhugað er í febrúar. Greinir hann frá þessu í tilkynningu. Magnús starfar sem forstöðumaður hjá sjóðastýringarfélaginu Stefni hf.
Í tilkynningunni segir Magnús að hann leggi áherslu á lága skatta, hagkvæman rekstur, skilvirka stjórnsýslu, hátt þjónustustig og forgangsröðun framkvæmda. Segir hann að Seltjarnarnesbær hafi notið þeirra gæfu í gegnum árin að gera hlutina skynsamlega og vel í stað þess að framkvæma um efni fram.
Í gær var fjárhagsáætlun bæjarins samþykkt, en það vakti athygli að einn bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna studdi skattahækkunarttillögur minnihlutans og verða því skattar hækkaðir. Í tilkynningunni segir Magnús að ýmsar áskoranir hafi blasað við bænum síðustu misserum bæði í rekstir og fjárfestingum. „Hækkun launa opinberra starfsmanna umfram almenn laun og hækkun lífeyrisskuldbindingar hafa verið afar krefjandi og heimsfaraldur þyngt róðurinn enn frekar. Vel hefur tekist að stýra sveitarfélaginu í gegnum þessar áskoranir og aukning skulda er hófleg en engin langtímalán voru tekin á síðasta ári. Raunar er Seltjarnarnesbær í öfundsverði stöðu þegar kemur að skuldaviðmiði sveitarfélagsins, ekki síst þegar búið er að taka tillit til samninga ríkisins og Reykjavíkurborgar við bæinn,“ segir hann.
„Áskoranirnar munu halda áfram og afar mikilvægt er að sterkur og samstilltur hópur Sjálfstæðismanna haldi um stjórnartaumana á Nesinu eftir næstu kosningar og taki á rekstri bæjarins af festu. Framundan er uppbyggingarskeið en ný Gróttubyggð mun brátt rísa við Bygggarða. Gert er ráð fyrir töluverði fjölgun íbúa og auknum skatttekjum án þess að fjárfesta þurfi í innviðum,“ segir jafnframt í tilkynningunni, en þar kemur fram að hann vilji jafnframt lækka fasteignaskatta og útsvar.