Kiwanisklúbburinn Helgafell veitti nýverið lögreglunni í Vestmannaeyjum styrk upp á aðra milljón króna til kaupa á fíkniefnaleitarhundi. Var hundurinn, er nefnist Móa, formlega afhentur í vikunni á lögreglustöðinni í Eyjum en þetta er fjórði hundurinn sem Kiwanismenn gefa embættinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Móa var flutt inn frá Englandi og er enskur Springer Spaniel. Formleg þjálfun á Móu er nýlega hafin, undir dyggri leiðsögn Heiðars Hinrikssonar lögreglumanns.