Niðurstaða talningamáls fellur í grýttan jarðveg

Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar.
Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar. Eggert Jóhannesson

Mikil óánægja er með það hvernig Alþingi lauk afgreiðslu talningamálsins svokallaða ef marka má nýjustu skoðanakönnun Prósents. Af þeim sem tóku þátt í könnuninni eru 46% óánægð með að seinni talningin í Norðvesturkjördæmi hafi verið látin gilda. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Marktækur munur á ánægju eftir aldri og búsetu

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er fólk á aldrinum 25-44 ára óánægðast með afgreiðslu Alþingis á talningamálinu. Þá er aðeins 27% ofangreinds aldurshóps ánægð með afgreiðslu Alþingis. Hins vegar eru yfir 5% þessa aldurshóps óánægð með lendingu málsins.

Ánægja með afgreiðslu þingsins virðist svo vaxa með hækkandi aldri en ánægjan nær þó ekki yfir 50% í neinum aldurshópi.

Lítill munur er á afstöðu kynjanna til málsins en karlar virðast þó ánægðari með afgreiðslu þingsins heldur en konur.

Sama má segja um afstöðu eftir búsetu en landsbyggðarfólk er ívið ánægðara með niðurstöðu málsins heldur en höfuðborgarbúar.

Þá mælist ánægja minnst meðal þeirra sem hafa minnstar tekjur en fjórðungur þeirra er einnig fjölmennasti hópur þeirra sem segist hvorki ánægður né óánægður með afgreiðslu þingins á málinu.

Frá kosningavöku Sjálfstæðisflokksins 2021.
Frá kosningavöku Sjálfstæðisflokksins 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfstæðismenn ánægðastir með lendinguna

Marktækan mun má sjá meðal svarenda eftir því hvernig þátttakendur kusu í alþingiskosningunum en 70% kjósenda Sjálfstæðisflokksins segjast ánægð með afgreiðslu þingsins á málinu og 52% kjósenda Framsóknarflokksins. Einungis 38% kjósenda Vinstri Grænna eru ánægð en 40% þeirra óánægð.

Ívið fleiri kjósendur Miðflokks og Flokks fólksins eru óánægðir en þeir kjósendur flokkanna sem eru hvað ánægðastir með lendingu þingsins.

Mun meiri óánægja er þó með niðurstöðu þingsins meðal kjósenda annarra stjórnarandstöðuflokka. Mest er óánægjan meðal kjósenda Pírata, þar sem 84% eru óánægð með niðurstöðuna.

Könnunin var framkvæmd dagana 1. til 10. desember 2021. Um netkönnun var að ræða meðal könnunarhóps Prósents. Könnunin var send til 2.300 einstaklinga 18 ára og eldri. Svarendur voru 1.141 og svarhlutfallið 49,6%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka