Aðsókn í hraðpróf hefur aukist til muna nú þegar nær dregur jólum og samkomum fer fjölgandi. Ríflega þrjú þúsund sýni hafa verið tekin í dag en búist er við rúmlega þúsund manns til viðbótar í sýnatöku, að sögn Ingibjargar Salóme Steindórsdóttur, verkefnastjóra hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Landsmenn þurfa þó ekki að óttast en Ingibjörg segir enn nóg af lausum plássum bæði á morgun og á laugardag.
„Við höfum líka alltaf aukið við en þá þarf fólk að bíða lengur. Við fylgjumst með því og bætum bara í en það eru takmörk fyrir öllu. Við erum ekki með endalaust af starfsfólki eða pláss hér fyrir utan fyrir bíla. En við höfum reynt okkar besta til að láta alla komast að.“
Langar raðir hafa myndast fyrir utan sýnatökustaði á höfuðborgarsvæðinu í dag en um sex þúsund manns hafa skráð sig í hraðpróf. Ingibjörg býst þó frekar við því að fjöldi sýna verði í kringum 4.500 undir lok dags þar sem mæting er aldrei í samræmi við skráningu.