Sýning með hátt í tvö hundruð ljósmyndum eftir Ragnar Axelsson - RAX var opnuð boðsgestum í sýningarsölum Kunstfoyer í virtu safni, Versicherungskammer Kulturstiftung, í München í Þýskalandi í gær.
Um er að ræða viðamestu yfirlitssýningu sem sett hefur verið upp með verkum Ragnars en hún er í nokkrum sölum. Vegna hertra sóttvarna í Þýskalandi var gestum hleypt í hollum inn á sýninguna.
Mikið hefur verið fjallað um Ragnar og verk hans í þýskum fjölmiðlum í tengslum við sýninguna. Til að mynda var í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung umfangsmikil umfjöllun um skrásetningu ljósmyndarans á norðurslóðum. Í tengslum við sýninguna gefur hið þekkta forlag Kehrer út myndarlega sýningarskrá en það er önnur bókin með verkum Ragnars sem kemur þar út á einu ári.