Rannsókn á bæði Procar- og Skeljungmálinu er lokið. Málin tvö eru komin til ákærusviðs sem tekur ákvörðun um hvort að ákært verði. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson Héraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en Kjarninn greindi fyrst frá málinu.
Ólafur segir Skeljungmálið vera gríðarlega umfangsmikið og því megi vænta að lengri tími verði tekinn í að ákvarða hvort ákært verði í því máli en í Procar-málinu.
Procar-málið snýst í grunnin um það að snemma árs 2019 viðurkenndu forsvarsmenn bílaleigunnar Procar að þeir hefðu skrúfað kerfisbundið niður kílómetrateljara í bílum sínum þegar þeir voru settir í sölu.
Skeljungsmálið snýst um kaup á Skeljungi árið 2010. Árið 2018 var greint frá því að meðal þess sem rannsókn héraðssaksóknara beindist að var með hvaða hætti forsvarsmenn fyrirtækisins greiddu fyrir 49% hlut í fyrirtækinu árið 2010. Sömuleiðis hvort veð Íslandsbanka gagnvart skuldum eignarhaldsfélagsins Skel Investment hafi verið rýrð með óeðlilegum hætti í aðdraganda þess að það fór í þrot.
Þá var einnig til rannsóknar með hvaða hætti fyrrverandi starfsmenn Íslandsbanka sem komið höfðu að sölu Skeljungs, þau Einar Örn Ólafsson, sem árið 2009 tók við starfi forstjóra Skeljungs, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Þór Guðjónsson, eignuðust árið 2011 hvert um sig 22% hlut í færeyska olíufélaginu P/F Magn sem Guðmundur og Svanhildur Nanna höfðu átt að fullu frá árinu 2009, en Guðmundur og Svanhildur Nanna voru einnig kaupendur Skeljungs.