Síðustu bréf Böðvars

Böðvar Guðmundsson hefur kastað boltanum frá sér.
Böðvar Guðmundsson hefur kastað boltanum frá sér.

Mál og menning hefur gefið út bókina Bréf Vestur-Íslendinga III, sem Böðvar Guðmundsson bjó til prentunar. Í formála fyrstu bókarinnar segir Böðvar að hann hafi tekið með sér 40 kg af ljósrituðum bréfum í handfarangri heim til Danmerkur, þar sem hann hefur búið síðan 1987, og nú segist hann vera kominn niður úr staflanum. „Það er gott til þess að vita að þetta safn mitt sé loks komið út,“ segir hann. „Það ber fyrst og fremst að þakka framgöngu Svavars Gestssonar, þáverandi formanns heiðursráðs Þjóðræknisfélags Íslendinga. Hann og Ólafur Davíðsson gengust fyrir söfnun peninga til að borga kostnað útgáfunnar.“ Böðvar lýsir jafnframt ánægju með að Bókaútgáfan Sæmundur hafi gefið út 2. útgáfu af Sögum úr Síðunni sem hafi fyrst komið út 2007.

Mikill efniviður

Langafi Böðvars flutti til Vesturheims og börn hans héldu bréfasambandi við Guðmund Böðvarsson, föður hans. Böðvar kynnti sér bréfin ásamt öðrum bréfum og notaði efnið í skáldsögurnar Híbýli vindanna og Lífsins tré. Í kjölfarið fór hann að huga að útgáfu íslenskra Ameríkubréfa. Hann naut aðstoðar héraðsskjalavarða víða um land og byrjaði að vinna úr fyrrnefndum ljósritum 1997. „Mér fannst að úrval þessara bréfa þyrfti að koma út,“ segir hann og vísar til sambærilegrar útgáfu víða. Meðal annars hafi komið út sjö binda útgáfa í Noregi og myndarleg útgáfa í Þýskalandi. Og sömu sögu sé að segja frá Danmörku og Svíþjóð. „Ég gerði mér ekki grein fyrir hvað þetta er mikið magn,“ heldur hann áfram og bendir á að Heimir Pálsson hafi gefið út öll bréf frá Jóni frá Mýri í Bárðardal í bókinni Leitinni að landinu góða, sem kom út 2006. „Svo það er bara eitt bréf frá honum í Bréfum Vestur-Íslendinga, en Jón frá Mýri í Bárðardal var einn mikilvirkasti bréfritari vestanhafs.

Í fyrsta bindinu eru bréf frá 1873 til 1887, í öðru frá 1887 til 1902 og í því þriðja frá 1902 til 1954. Þau segja merkilega sögu. Böðvar minnir á að möguleikar landsmanna til framfærslu hafi verið af skornum skammti hérlendis. Íslendingar hafi flutt út í óvissuna, ekki vitað hvað biði þeirra handan hafsins og allt hafi verið nýtt fyrir þeim. „Þeir kunnu ekki einu sinni að nota skóflu, en náðu reyndar undrafljótt tökum á því sem þeir tóku sér fyrir hendur.“ Tónninn í bréfunum hafi gjarnan endurspeglað beiskju yfir því að hafa orðið að fara frá Íslandi og bréfin beri oft með sér heimþrá og söknuð. Í bréfunum í þriðja bindinu kveði við annan og jákvæðari tón eftir því sem á líði tímabilið. „Þá hefur fólk fest rætur og hafa ber í huga að eftir því sem íslenska samfélagið vestanhafs varð fjölmennara var auðveldara fyrir frumbyggja að hasla sér völl. Frumbyggjarnir voru mállausir á enska tungu og lentu í vandræðum. Margar konur unnu hjá enskum fjölskyldum og lærðu oft málið á undan íslensku körlunum.“

Hjónin Böðvar og Eva Rode búa skammt fyrir utan Kaupmannahöfn og tóku þátt í að flytja Jólaoratoríu Bachs í byrjun mánaðarins.

„Ég hef verið í kórum frá 1978, fyrst á Akureyri, síðan í Noregi og svo hérna, en Eva spilar á fiðlu.“ Kórinn og hljómsveitin hafi verið með tvenna tónleika og þeir verði ekki fleiri fyrir jól.

Böðvar segist ekki ætla að búa fleiri bréf til prentunar og kasti boltanum til annarra. „Vafalaust eru mörg bréf eftir og ef einhver vill gefa þau út er það gleðilegt og gott.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert