Styttri refsing en hærri bætur fyrir nauðgun

Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í dag.
Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í dag.

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar yfir karlmanni, sem meðal annars hafði verið sakfelldur fyrir að kúga konu til kynmaka með öðrum mönnum ásamt því að nauðga henni tvívegis sjálfur, þegar hún hélt að hann væri annar maður.

Með ákæru héraðssaksóknara í maí árið 2018 var manninum gefin að sök nauðgun og brot gegn blygðunarsemi með því að hafa frá mars 2015 til ársbyrjunar 2017 sýnt af sér lostugt athæfi og sært blygðunarsemi brotaþola.

Var hann í Héraðsdómi Reykjaness og Landsrétti dæmdur fyrir að hafa beitt hana blekkingum og nýtt sér villu hennar um að hann væri annar maður í samskiptum þeirra á milli, í gegnum samskiptaforritið Snapchat, í þeim tilgangi að eiga í kynferðislegum samskiptum við hana og brjóta gegn henni.

Vísaði 2. ákærulið frá dómi

Hæstiréttur staðfesti þó ekki fyrri dóma að öllu leyti, heldur gerði athugasemd við annan lið ákærunnar af þremur.

Í þeim lið hafði manninum verið gefið að sök að hafa þvingað brotaþola til kynferðislegra samskipta við aðra karlmenn, „sem meðal annars hafi falist í því að kyssa, hafa samræði um leggöng og stunda önnur kynferðismök með mönnunum og láta hana taka upp og senda sér myndir, mynd- eða hljóðupptökur af framangreindum samskiptum með því að hóta að birta opinberlega kynferðislegar myndir af brotaþola“, eins og segir í dómi réttarins.

Þessi háttsemi mannsins var talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en þar er kveðið á um viðurlög við nauðgun.

Hæstiréttur taldi að ákæruliðurinn hefði ekki verið nógu greinargóður og skýr til að manninum hefði væri fært að taka afstöðu til sakargiftanna og halda uppi vörnum gegn þeim.

Taldi rétturinn því óhjákvæmilegt að vísa þeim ákærulið frá dómi.

Þrjú ár og sex mánuðir í stað fjögurra ára

Var refsing mannsins ákveðin þrjú ár og sex mánuðir og honum gert að greiða brotaþola 2.000.000 króna í miskabætur.

Héraðsdómur og Landsréttur höfðu áður dæmt manninn til fjögurra ára fangelsisvistar.

Héraðsdómur hafði þá dæmt manninn til greiðslu kr. 1.500.000 í miskabætur, og Landsréttur hækkað upphæðina í 1.800.000 krónur.

Fangelsisrefsing mannsins styttist því um hálft ár við dóm Hæstaréttar en hann þarf þó að inna af hendi hærri miskabótagreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert