Vilja að Finnbogi dragi ásakanir sínar til baka

Finnbogi Hermannsson með einræður Steinólfs.
Finnbogi Hermannsson með einræður Steinólfs. mbl.is/Sigurður Bogi

Morgunblaðinu hefur borist yfirlýsing frá börnum Steinólfs Lárussonar í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dölum vegna ásakana Finnboga Hermannssonar, sem skráði ævisögu Steinólfs, á hendur Bergsveini Birgissyni rithöfundi fyrir að hafa tekið orðfæri úr bókinni Einræður Steinólfs og notað í bók Bergsveins, Svar við bréfi Helgu. Einræður Steinólfs komu út árið 2003 en bók Bergsveins árið 2010.

Í yfirlýsingunni, sem Bergsveinn aðstoðaði við að senda Morgunblaðinu, fara börn Steinólfs fram á það við Finnboga að hann dragi ásakanir sínar til baka. Komu þær í kjölfar fregna um að Bergsveinn hafði ásakað Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um ritstuld, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu.

Lýsa þau jafnframt óánægju sinni með vinnubrögð Finnboga við endurútgáfu á Einræðum Steinólfs, sem komu út árið 2019.

Yfirlýsingin er undirrituð af Sesselju, Höllu Sigríði og Stefáni Skafta Steinólfsbörnum og er eftirfarandi, millifyrirsögn er blaðsins:

„Við Steinólfsbörn urðum hvumsa við að Finnbogi Hermannsson ásaki Bergsvein Birgisson um ritstuld.

Eins og öllum hlutaðeigandi aðilum er kunnugt færði Steinólfur sjálfur mikið af frásögnum bókarinnar Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal (2003) í letur. Í því tilviki, þegar Finnbogi Hermannsson ásakar aðra um ritstuld þar sem vísað er í orðfæri Steinólfs sjálfs, hefur Finnbogi eignað sér það orðfæri sem Steinólfur lagði til verksins, og í öðru lagi slær Finnbogi eign sinni á orðfæri Steinólfs almennt þegar hann sagði frá. Er rétt að geta þess að fleiri en Finnbogi Hermannsson komu að útgáfu bókarinnar, og lögðu enn ríkari ritstjórn af hendi til verksins en Finnbogi.

Voru ekki spurð álits við endurútgáfu

Við erum því hjartanlega ósammála að hann slái eign sinni á texta og orðfæri Steinólfs á þennan hátt. Förum við fram á að ásakanir þessar verði dregnar til baka.

Ekki var heldur staðið að endurútgáfu bókarinnar, Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal árið 2019, á þann hátt sem við vildum, og ekki veittum við heldur skriflegt umboð til þess. Þar hefur Finnbogi skeytt sínum eigin texta, sem hann kallar Skarðsstrandarrollu, framan við texta Steinólfs, og lítum við svo á að það eigi ekki heima við hlið höfundarverks Steinólfs. Og þótt höfundarréttur segi til um að bókin sé Steinólfs líka vorum við ekki spurð álits á þessu fyrirkomulagi og erum því mótfallin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert