Ólíklegt er að landsmenn fái að sjá frjálslegri veruleika fyrir jól en núverandi reglugerð um sóttvarnaaðgerðir gildir til 22. desember. Sóttvarnalæknir telur ekki forsendur til afléttinga þar sem faraldurinn er á uppleið hérlendis.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ekki skilað minnisblaði um áframhaldandi aðgerðir til Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra en hann mun gera það á næstu dögum.
„Mér finnst ólíklegt að ég komi með tillögur um [afléttingar]. Mér finnst engar forsendur vera fyrir því,“ segir Þórólfur aðspurður.
Rúmlega 60 smit af Ómíkron-afbrigði veirunnar hafa greinst hér á landi, flest tengjast þau landamærunum en nokkur smit er ekki hægt að rekja til annarra Ómíkron-smita. Þórólfur telur líklegt að smitum af Ómíkron-afbrigði eigi eftir að fjölga á næstunni.
„Þetta eru aðallega smit sem tengjast landamærunum og greinast þar. Svo eru nokkrir í kringum það fólk sem þar greinist, til dæmis Akraness-smitin. Svo hafa nokkrir greinst sem ekki eru með tengingu sem segir okkur að þetta hafi lekið einhvern veginn í gegnum landamærin,“ segir Þórólfur.
mbl.is hefur borist ábending um að túlkun Þórólfs á samantekt Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDCI) frá 1. desember sl., sem birt var á covid.is í vikunni, sé misvísandi. Í pistli Þórólfs á covid.is kemur fram að 0,6% barna á aldrinum 5-11 ára sem smitast af Covid-19 þurfi á spítalainnlögn að halda, 10% þeirra þurfi að leggjast inn á gjörgæslu og 0,006% smitaðra barna hafi látist. Þetta virðist þó ekki alveg stemma þar sem í skýrslu ECDCI er talað um hlutfall barna sem hafa greinst smituð og sýna einkenni Covid-19, ekki allra barna sem greinst hafa smituð.
„Ég hef heyrt þessa umræðu og þetta er rétt ábending, þ.e.a.s. að í mínum pistli geri ég ekki greinarmun á smiti og sýkingu með einkennum. Ég mun birta leiðréttingu á Covid.is,“ segir Þórólfur.
Um hlutfall smitaðra sem upplifa langvarandi einkenni Covid-19 segir Þórólfur það ekki liggja ljóst fyrir.
„Það er ekki búið að gera þetta upp formlega, hvorki hér né annars staðar. Svo eru ýmsar tölur sem maður sér erlendis – sumir tala um 30 til 50% af öllum sem greinast, öllum smituðum og veikum einstaklingum, ekkert endilega þeim sem leggjast inn á sjúkrahús. Þetta á eftir að skýrast betur, hvernig þetta liggur. Þetta er svolítið mismunandi eftir því hvaða skilgreiningu menn nota á langtíma afleiðingar Covid þannig að þetta er ekki orðið alveg klárt,“ segir Þórólfur og bætir við:
„Ég held að það sé nokkuð ljóst að það er stór hópur sem er með langvinn einkenni Covid.“