Almar hyggst gefa kost á sér í prófkjöri

Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.
Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Ljósmynd/Samtök iðnaðarins

Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, hyggst gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, sem fer að öllum líkindum fram í febrúar á næsta ári. Þetta staðfesti Almar sjálfur, í samtali við mbl.is.

„Já, ég ætla að bjóða mig fram, það er ákveðið, en nákvæmlega hverju ég mun óska eftir liggur ekki alveg fyrir,“ segir hann.

Í ljósi þess hve stutt er síðan Gunnar Einarsson, núverandi bæjarstjóri Garðabæjar og oddviti meirihlutans í Garðabæ, tilkynnti að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri og muni láta af störfum að yfirstandandi kjörtímabili loknu segist Almar ætla að gefa sér tíma til að hugleiða næstu skref og ræða þau við „gott fólk.“

Spurður segist Almar ekki vilja tjá sig um það strax hvers vegna fólk ætti að kjósa hann.

„Ég er auðvitað enn bara að hugsa málið. Ég mun taka þátt í prófkjörinu en er ekki búinn að ákveða nákvæmlega á hvaða forsendum það verður. Mér finnst ég þurfa að ákveða það áður en ég fer að koma með einhverja söluræðu.“

Þá liggur ekki fyrir hvaða sæti á lista flokksins hann mun óska eftir, segir hann inntur eftir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert