Blóðsýni úr þremur einstaklingum, sem grunur lék á að hefði verið byrlað ólyfjan, sýndu fram á töluvert áfengismagn en engin merki voru um deyfilyf eða fíkniefni.
Frá þessu greinir lögreglan á Norðurlandi eystra, en um var að ræða einstaklinga sem grunað var að byrlað hefði verið á skemmtistöðum eða í heimahúsum á Akureyri í lok október.
„Í öllum tilvikum voru sýnin tekin fljótlega eftir að grunur vaknaði um brot og strax eftir að afskipti lögreglu hófust,“ segir í stuttri tilkynningu lögreglunnar.
„Lögreglan hafði áður haft afskipti af fjórða aðilanum sem taldi að sér hefði verið byrlað. Að mati læknis var ekki talið að um byrlun væri að ræða í því tilviki og voru ekki tekin blóðsýni.“