Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvo erlenda karlmenn í annars vega fimm mánaða fangelsi og hins vegar þriggja mánaða fangelsi fyrir þaulskipulögð þjófnaðarbrot.
Mennirnir voru handteknir 27. október, eftir að þeir voru gripnir við að stela úr verslun Bláa lónsins, og úrskurðaðir í gæsluvarðhald tveimur dögum síðar.
Að mati lögreglu var um að ræða þaulskipulögð þjófnaðarbrot, sem framkvæmd voru af ríkum ásetningi, þar sem verknaðaraðferð voru þaulskipulögð og notaðar til verksins sérútbúnar töskur, þjófnaðarnir eru ítrekaðir og endurteknir, framkvæmdir af mörgum aðilum og á mörgum stöðum. Alls var ákæran í tíu liðum.
Mennirnir játuðu að hafa stolið fatnaði úr verslun Sports Direct að verðmæti 163.900 krónum, úlpum að verðmæti 310 þúsund úr verslun Bláa lónsins, vörum úr Hagkaupum fyrir 221.883 krónur, ilmvatni úr Lyf og heilsu fyrir 114.082 krónur og fatnaði úr Isabellu fyrir 113.360 krónur.
Auk þess stal annar mannanna úlpum og bol úr verslun 66° á Akureyri að vermæti 94.100 krónum.
Sá sem fór norður fékk fimm mánaða dóm, þar af eru þrír þeirra skilorðsbundnir. Hinn var dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar, þar af eru tveir þeirra skilorðsbundnir.