„Þetta eru gríðarlega góð viðbrögð og ánægjuleg,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við Morgunblaðið.
Mikil ásókn var í lóðir í nýju hverfi í Grindavík, Hlíðarhverfi, en í gær var úthlutað lóðum í fyrsta hluta uppbyggingar hverfisins. Alls bárust 389 umsóknir um lóðir í fyrsta áfanga en úthlutanir voru 33 talsins. Um var að ræða einbýlishús á einni hæð, raðhús bæði á einni og tveimur hæðum, parhús og fjölbýli. Mest ásókn var í raðhúsin en 43 umsóknir bárust um eina raðhúsalengju. Vegna þessarar miklu ásóknar var dregið spil um hverja einustu lóð.
„Við erum mjög ánægð með að fá meira en tífaldan fjölda umsókna sem nam lóðum til úthlutunar. Lager okkar af lóðum var uppurinn og þetta sýnir að við máttum ekki vera seinna á ferðinni með að koma þessu nýja hverfi í auglýsingu,“ segir Fannar bæjarstjóri.