Heilbrigðisráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að embætti landlæknis hafi brotið gegn stjórnsýslulögum um málshraða vegna tafa á meðferð kvörtunarmáls aðstandenda, vegna meintrar vanrækslu heilbrigðisstarfsmanns.
Starfsmaðurinn, sem hefur verið í veikindaleyfi vegna málsins frá því í maí á þessu ári, kærði málsmeðferðina, sem dregist hefur á langinn, og gerði kröfu um að henni yrði lokið án tafar.
Forsaga málsins er sú að þann 9. apríl 2019 barst embætti landlæknis kvörtun frá aðstandenda sjúklings vegna meintrar vanrækslu heilbrigðisstarfsmannsins sem varð til þess að sjúklingurinn lést. Kvörtunin var hins vegar ekki send til umsagnar fyrr en 21. júní sama ár. Embætti landlæknis sendi aðstandendum hinnar látnu ekki umsögn kæranda fyrr en tæpu ári eftir að kvörtunin barst. Þegar ekkert hafði heyrst af málinu í maí á þessu ári spurðist framkvæmdastjóri lækninga á vinnustað heilbrigðisstarfmannsins fyrir um það hjá embættinu, en fékk þau svör að kynningarferli væri enn í gangi og að ekki væri búið að taka ákvörðum um hvort fenginn yrði óháður sérfræðingur í málinu eða ekki.
Fram kemur í kæru heilbrigðisstarfsmannsins að þær tafir sem hafi orðið á málinu séu „ólíðandi og fram úr öllu hófi“. Hinn langi málsferðartími sé eingöngu embætti landslæknis að kenna, en ekki málsaðilum sem hafi skilað andmælum innan fresta sem veittir hafi verið.
Embætti landlæknis bar meðal annars fyrir sig að flutningur í nýtt húsnæði og yfirfærsla í pappírslaust umhverfi hefði haft áhrif á málsferðartímann en ráðuneytið telur embættið ekki geta afsakað sig með því. Fjöldi kvörtunarmála sem væri til meðferðar hjá embættinu og uppgefinn afgreiðslutími þeirra, 12 til 36 mánuðir, gæti heldur ekki réttlætt töf málsmeðferðarinnar. Þá gerði ráðuneytið athugasemdir við að ekki hafi verið kallað eftir umsögn deildarlæknis fyrr en tveimur árum eftir að kvörtunin barst.
Er það mat ráðneytisins að tafirnar samrýmist ekki stjórnsýslulögum, en í þessu sambandi horfir ráðuneytið einnig til þess að álit landlæknis hafi að geyma niðurstöðu um hvort heilbrigðisstarfsmaður hafi gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu. Sjúklingur hafi látið lífið og að óréttmætar tafir á málsmeðferð hafi í för með sér aukna bið sem geti verið íþyngjandi fyrir aðila málsins.
Samkvæmt þeirri niðurstöðu ráðuneytisins er embætti landlæknis gert að ljúka meðferð málsins eins fljótt og auðið er.