Félag íslenskra leikara (FÍL), hefur hlotið nýtt nafn, að því er greint frá í tilkynningu frá félaginu.
Félag íslenskra leikara var stofnað þann 22. september 1941 og átti því 80 ára afmæli á liðnu hausti. Stofnendur voru 16 leikarar og var Þorsteinn Ö. Stephensen fyrsti kjörni formaður félagins.
Í tilkynningunni segir að á þeim tíma sem liðinn sé frá stofnun hafi starfsemi félagasins vaxið og fjöldi félagsmanna aukist mjög, en þeir séu nú yfir 500 talsins. FÍL sé nú félag leikara, dansara, söngvara, danshöfunda, leikmynda – og búningahöfunda og listnema í sviðslistum.
Það hafi því þótt tímabært að breyta nafni félagsins þannig að það væri lýsandi fyrir starfsemina og þá félagsmenn sem í því eru.
Nýtt nafn félagsins sem samþykkt var á framhaldsaðalfundi mánudaginn síðastliðinn er: Félag íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum.
Félagið hyggst þó nota stutta nafnið FÍL áfram og segja forsvarsmenn þess þá listamenn sem ekki falla undir regnhlíf félagsins enn hjartanlega velkomna í félagið.