Gríðarleg „nýsköpun“ í svikamálum á netinu

Brotahópar eru fljótir að laga sig að breyttum aðstæðum.
Brotahópar eru fljótir að laga sig að breyttum aðstæðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menntuðum lögreglumönnum við störf hefur lítið sem ekkert fjölgað hér á landi frá árinu 2007 þrátt fyrir háleit markmið um annað. Skortur á mannafla innan lögreglunnar og fjármagni kemur í veg fyrir að hægt sé að sinna frumkvæðislöggæslu með fullnægjandi hætti, en það er einn mikilvægasti þátturinn í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Þetta segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Það séu þó jákvæð teikn á lofti því vilyrði hefur fengist fyrir því að taka inn fleiri nema í lögregluskólann næsta haust.

Áhætta vegna skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi er mjög mikil, að fram kemur í mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra á skipulagðri brotastarfsemi í nýlegri skýrslu, og felur hún í sér ógn við öryggi samfélags og einstaklinga. Þá eykur aukin notkun brotahópa á stafrænni tækni álag á ýmsum sviðum löggæslunnar.

Þarf að auka viðveru lögreglu í netheimum

Runólfur segir að draga megi þá ályktun að skipulögð brotastarfsemi sé umfangsmeiri hér á landi en afbrotatölfræði segi til um, þar sem skorti bæði mannafla og fjármagn til að sinna frumkvæðislöggæslu með fullnægjandi hætti. Skipulögð brotastarfsemi getur heyrt undir fíkniefnabrot, mansal, tölvu- og netglæpi, svik og falsanir, peningaþvætti og umhverfisafbrot

„Þetta er dulin starfsemi og það er ekki mikið um að lögreglan fái kærur í þessum málaflokkum sem við erum að eiga við. Frumkvæðisvinnan er því algjör lykill að þessu. Árið 2013 voru sett mjög háleit markmið um að fjölga menntuðum lögreglumönnum en það hefur ekki gengið eftir. Til þess að sinna frumkvæðislöggæslu þá þurfum við fleiri lögreglumenn. Það er bara alveg skýrt.“

Þá bendir Runólfur á, líkt og fram kemur í skýrslunni, að lögreglan verði sífellt að vera að þróa sinn tæknibúnað til að geta brugðist við, bæði í stafrænum samskiptum og svikamálum sem sífellt verða algengari. „Við þurfum að auka viðveru lögreglunnar í netheimum,“ útskýrir hann.

Langtímarannsóknir nauðsynlegar

„Eitt af því sem við þurfum líka að skoða er að horfa inn á við, og skoða hvort lögreglan með þær heimildir og mannafla sem við höfum nú þegar, hvort við getum gert skipulagsbreytingar hjá okkur. Við höfum talað um að í stað þess að það séu nokkrar rannsóknareiningar hjá nokkrum embættum að sinna þessum málaflokki, verði ein öflugri rannsóknardeild á landsvísu sem myndi eingöngu sinna rannsóknum sem varða skipulagða brotastarfsemi.“ Runólfur telur að það fyrirkomulag gæti orðið skilvirkara og bendir á að minnst sé á það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að skoða þurfi skipulag lögreglu og deilda með skilvirkni í huga.

Hann segir það vissulega orðið þreytt að vera alltaf að kvarta yfir skorti á fjárveitingum og mannafla. „En engu að síður, þetta er það sem blasir við okkur. Til þess að geta skilgreint það sem er á ensku „high value targets“ eða þessa lykilleikendur í brotastarfsemi þá þarf langtímarannsóknir. Það þarf sérhæfða lögreglumenn og ákærendur og góðan tæknibúnað.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé vissulega með ágætisdeild og tæknideild en það gætu verið fleiri lögreglumenn sem væru að sinna þessum málaflokki. „Við höfum náð í ágætis frumkvæðismál á undanförnum árum en þarna myndum við vilja styrkingu.“

Aðlögunarhæfni brotahópa mikil

Runólfur segir meginmarkmið brotahópa að græða. Ýmsar leiðir séu farnar í þeim efnum, sumar frumlegri en aðrar, og allar glufur séu nýttar.

„Við sjáum ákveðna þróun varðandi peningaþvætti. Þar er verið að færa ólögmæta starfsemi í lögmætan búning. Það er jafnvel leitað eftir aðstoð sérfræðinga til ljá þessu löglegt yfirbragð.“

Þá séu brotahópar fljótir að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og ef einar dyr lokast, opnast strax aðrar. „Aðlögunarhæfni þessara brotahópa sést mjög vel í þessum svikamálum á netinu. Þar er gríðarleg nýsköpun. Um leið og covid-faraldurinn hófst þá var nokkrum vikum síðar farið að selja svikinn hlífðarbúnað, eða ekki vottaðan. Svo komu svikabóluefni og svikalyf. Það er ótrúleg aðlögunarhæfni hjá þessum brotahópum og þeir eru fljótir að bregðast við þegar þeir sjá hvar er hægt að svíkja fé út úr fólki.“

Málum fjölgar ef lagaramminn er skýr

Hann segir lága glæpatíðni ekki segja til um það hve umfangsmikil brotastarfsemin er. „Ef það væru fleiri lögreglumenn að sinna frumkvæðislöggæslu þá værum við væntanlega með fleiri mál.“

Það sé gríðarlega mikilvægt að staldra ekki við heldur spýta í lófana og halda áfram á sömu braut í að styrkja löggjöfina og skoða alvarlega hvort ekki sé hægt að fjölga lögreglumönnum. „Við erum búin að fá, ekki loforð, en svona vilyrði fyrir því að við gætum bætt verulega í. Tekið inn fleiri nema í lögregluskólann. Ég er því ekki mjög svartsýnn,“ segir Runólfur.

Þá skipti skýr löggjöf líka miklu máli þegar kemur að því að rannsaka mál. „Við sáum það þegar við fengum heildstæða löggjöf í peningaþvættismálunum að málunum fjölgaði. Við drögum þá ályktun að málunum hafi ekki fjölgað, heldur það að við fengum heildstæða löggjöf, þá reyndist okkur auðveldara að rannsaka þessi mál. Það er mikil fjölgun í peningaþvættismálum hjá lögreglu og það skýrist af því.“

Þá hafi ný löggjöf varðandi mansal líka skipt sköpum. „Það reyndist okkur erfitt að vinna í lagarammanum en svo fengum við lagabreytingu í gegn á þessu ári varðandi mansalið og vonumst til að það fari fleiri mál í ákæru. Þegar lagaramminn er skýr þá fjölgar málunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert