Helgi Seljan Jóhannsson fréttamaður og Ríkisútvarpið voru í dag sýknuð í Landsrétti af kröfum um að ummæli í þætti Kastljóss í ágúst 2015 yrðu dæmd dauð og ómerk. Staðfesti Landsréttur þar með dóm héraðsdóms.
Einn dómari Landsréttar, Ásmundur Helgason, skilaði hins vegar séráliti og taldi að tvö ummæli í þættinum fælu í sér ærumeiðandi aðdróttun um refsiverða háttsemi. Dómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Símon Sigvaldason skrifuðu hins vegar meirihlutaálitið og töldu ummælin innan marka.
Í þættinum sem um ræðir fjallaði Helgi Seljan um heimilisofbeldi og umsáturseinelti og úrræðaleysi kvenna sem fyrir því verða. Sérstaklega var fjallað um nálgunarbönn og gagnsleysi þeirra sem réttarúrræði. Var þar rætt við konu sem lýsti reynslu sinni af heimilisofbeldi um umsáturseinelti eftir skilnað og úrræðaleysi hennar tekið sem dæmi.
Maðurinn sem kærði Helga og Ríkisútvarpið er fyrrverandi maður konunnar og barnsfaðir hennar. Taldi hann að fjallað hefði verið um persónulegar deilur sínar við barnsmóður sína á óvarlegan og óhlutlausan hátt svo að vegið hafi verið að æru hans þar sem sjónum áhorfenda hafi einkum verið beint að ásökunum konunnar á hendur honum um langvarandi áreitni, hótanir, ofbeldi, skemmdarverk og skjalafals.
Í dómi Landsréttar segir að í málinu sé tekist á um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Venjulega sé þar um að ræða hvort um gildisdóma eða staðhæfingar um staðreyndir sé að ræða, en í þessu tilfelli séu flest ummælin staðhæfingar um staðreyndir. Tekið er fram að ummælin séu látin fjalla í umræðu um úrræðið nálgunarbann, framkvæmd þess, vernd brotaþola og skort á gagnsemi úrræðisins.
Maðurinn sem kærir er ekki nafngreindur í þættinum, en fyrrverandi eiginkona hans kom hins vegar fram í þættinum undir nafni. Þar með verði til ákveðin persónugreining.
Meðal gagna í málinu eru m.a. skjöl um nálgunarbann sem konan fékk á manninn og upplýsingar um tilvik þar sem konan leitaði til lögreglu vegna hótana, skemmdarverka og áreitis mannsins. Einnig skýrslur barnaverndar og lögregluskýrsla þar sem fram kom að maðurinn hafi verið færður í burtu í járnum frá leikskóla eldri dóttur sinnar eftir að hafa ráðist á starfsmann þar. Héraðsdómur staðfesti fyrrnefnt nálgunarbann sem og framlengingu þess. Það gerði Hæstiréttur einnig.
Landsréttur felst á að í ummælum Helga í þættinum hafi ekki falist persónuleg skoðun hans, heldur hafi verið um að ræða endursögn hans á ummælum konunnar. Þá segir að jafnframt verði ekki fallist á með manninum að ummælin haif verið sett fram á hlutdrægan hátt. Er tekið fram að ítrekuðu áreiti mannsins gagnvart konunni sé lýst í fyrri dómi héraðsdóms og að það sýni að grundvöllur fyrir frásögn konunnar í Kastljósi sé nægilega traustur.
Sem fyrr segir skilaði dómarinn Ásmundur Helgason sératkvæði í málinu. Taldi hann eins og hinir dómararnir að sýkna ætti Helga af flestum liðum kærunnar. Hins vegar taldi hann ummæli í tveimur liðum fela í sér ærumeiðandi aðdróttun um refsiverða háttsemi mannsins og að efni væru til að ómerkja þau. Jafnframt að Helgi ætti að greiða miskabætur.
Ummælin sem um ræðir eru annars vegar: „Nokkuð dró úr ofbeldinu eftir fæðingu eldri dótturinnar, en þegar sú yngri var hálfs árs, réðst maðurinn á B og sló hana að eldra barninu sjáandi“ og hins vegar: „Maðurinn falsaði auk þess undirskriftir B á umsóknir um fæðingarorlofsgreiðslur og pappíra til Tryggingarstofnunar,“ þar sem B er nafn konunnar.