Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segist vera á þeirri skoðun að jafnvægi milli Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla hér á landi sé ekki eins og best væri á kosið og að þeir fjármunir sem renni til Ríkisútvarpsins séu töluvert háir.
Að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra hafði 420 milljóna króna aukið fjárframlag til Ríkisútvarpsins ekki áhrif á skerðingu styrkja til einkarekinna fjölmiðla. Hún segir styrkina ekki tengda og að innbyggt tekjumódel Rúv hafi valdið þessari þróun.
Þess ber að geta að aukningin til Ríkisútvarpsins nemur meira fjármagni en upphæðin sem allir einkareknir miðlar fá í sinn hlut sem er um 384 milljónir króna samtals.
Þórdís segir að ræða þurfi frekar hvað sé hægt að gera til þess að koma á jafnvægi, eitt af því sem hefur verið rætt sé að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Hún segist gera ráð fyrir því að þessi umræða haldi áfram á nýju ári.
„Þetta mál hefur ekki verið sérstaklega rætt innan ríkisstjórnar, þetta er mál sem hefur verið rætt innan þingflokksins og það kemur kannski ekki á óvart að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins setur spurningamerki við þetta jafnvægi á milli Ríkissútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla,“ Segir Þórdís.
„Við vitum að staða einkarekinna fjölmiðla er ekki eins og best verður á kosið og það eru margar mismunandi leiðir sem hægt er að fara til þess að bæta það, en þar eru mjög rík sjónarmið um að jafnvægið þurfi að vera meira en nú er.“