Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra leggur mikla áherslu á að bólusetningar barna gegn Covid-19 verði frjálst val og að vandað verði til undirbúnings og upplýsingagjafar í tengslum við þá framkvæmd. En líkt og greint hefur verið frá hefur verið tekin ákvörðun um að börnum á aldrinum 5 – 11 ára verði boðin bólusetning gegn covid-19 strax eftir áramót.
„Það er í undirbúningi að bjóða upp á það. Lyfjastofnun Evrópu er búin að samþykkja lyf að undangenginni rannsókn. Það er staðan. Sóttvarnarlæknir, sóttvarnarráð, smitsjúkdómasérfræðingar og læknar sem best þekkja þetta mæla með þessu. Það var tekin sú ákvörðun, sóttvarnalæknir tók þá ákvörðun að bjóða upp á þetta. Nú er bara í undirbúningi hvernig á að framkvæmda þetta og það er auðvitað ekki sama hvernig það er gert. Það liggur ekkert fyrir endanleg útfærsla á því en ég legg mikla áherslu á það að þetta sé frjálst val og það verði vandað vel til undirbúningsins og þeirra upplýsinga sem fylgja,“ segir Willum í samtali við mbl.is.
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað jafnt og þétt hér á landi síðustu daga og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að smitin séu fyrst og fremst hjá óbólusettum, bæði börnum og fullorðnum.
Aðspurður hvort aðgerðir verði hertar fyrir jól, til að sporna við frekari útbreiðslu, segir Willum það samtal vera í gangi.
„Það verður ráðherranefndarfundur á mánudaginn og ríkisstjórnarfundur á þriðjudag. Við lögðum upp með að framlengja reglugerðina eins og hún var í hálfan mánuð og meta þessa óvissu sem hefur verið í kringum þetta afbrigði, Ómíkron. Við erum bæði að fylgjast vel með því sem er að gerast erlendis og hvað kann að gerast hér og tölunum sem hafa verið undanfarna daga.“
Sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í gær að faraldurinn væri á uppleið og að ástæðan væri líklega sú að mikið rót væri á fólki og sóttvarnir væru ekki alltaf í hávegum hafðar á viðburðum. Sem stendur mega einungis 50 koma saman nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að gestir fari í hraðpróf fyrir viðburði. Í þeim tilvikum mega 500 koma saman. Þórólfur sagði aðgerðirnar ekki hafa skilað tilætluðum árangri, en núverandi reglugerð rennur út 22. desember næstkomandi.
Willum segir að rætt verði um þær reglur sem við ætlum að setja okkur sem samfélag og að byggt verði á þeim gögnum sem legið er yfir.
Hvenær er á von á nýju minnisblaði?
„Ég giska á að það formist inn í helgina og svo mun ég tilkynna það eins og áður á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag.“
Er einhver umræða um að þríbólusettir verði undanþegnir aðgerðum?
„Það er eflaust einhvers staðar umræða um það, en við erum ekki á þeirri vegferð.“