Þau Þórir Ingvarsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Kolbrún Jóhanna Pétursdóttir lögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu munu í kvöld og í nótt sitja við lyklaborðið og tísta af miklum móð og gefa almenningi sýn á þau verkefni sem lögreglan sinnir á hverjum degi. Snýr lögreglan þar með aftur með „löggutístið“ sem var árlegur viðburður en hefur verið í hvíld síðustu tvö árin.
Þórir segir í samtali við mbl.is að árið 2019 hafi veirð ákveðið að taka hlé frá löggutístinu og í fyrra hafi svo allt snúist um faraldurinn og ekkert orðið af verkefninu þá heldur. „En við vorum farin að sakna þess svolítið mikið og ákváðum að skella í þetta núna,“ segir hann.
Löggutístið hefur alltaf verið um miðjan desember og spurður um ástæður þess segir Þórir að þá séu í gangi ýmisskonar mál sem séu lögreglunni kær en jafnframt stundum nokkuð þung. Nefnir hann í því samhengi að mikil áhersla sé sett á eftirlit með ölvunar- og vímuefnaakstri. „Svo hafa líka því miður verið fleiri heimilisofbeldismál um hátíðirnar,“ segir Þórir og bætir við að lögreglan vilji varpa ljósi á þá erfiðu málaflokka sem séu of algengir í samfélaginu.
Segir Þórir að öfugt við flesta þjónustuaðila þá vilji lögreglan helst sem minnst viðskipti. „Twitter er góður vettvangur til að minna á þessi mál,“ segir hann.
Löggutístið verður í gangi frá klukkan fjögur í dag og fram til klukkan fjögur í nótt. „Það er ekki hægt að sjá hvar útkallið er eða hver á í hlut, en markmiðið er að sýna helstu verkefni og hvað það er sem kemur inn á borð lögreglunnar,“ segir Þórir.
Spurður hvort öll mál muni rata inn á Twitter segir Þórir að hingað til hafi lítið þurft að sía út, en þó sé þumalputtareglan að því alvarlegri sem brotin séu því minna sé hægt að gefa upp. „Það er ekki markmiðið að gefa nákvæmar upplýsingar um hvert mál, heldur að sýna hversu margvísileg mál lögreglan fæst við.“ Þá segir hann að fyrirfram sé líka sú regla að ekki sé greint frá mannslátum eða kynferðisbrotum.
Hægt verður að fylgjast með löggutístinu hér í glugganum að neðan: