Mótefnamagn margfaldast eftir þriðja skammt

Bólusett í Laugardalshöll. Nú hafa um 150.000 Íslendingar fengið örvunarbólusetningu.
Bólusett í Laugardalshöll. Nú hafa um 150.000 Íslendingar fengið örvunarbólusetningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magn verndandi mótefna sem myndast eftir bólusetningu gegn Covid-19 margfaldast eftir að fólk fær þriðja skammtinn af bóluefninu, miðað við þær mótefnamælingar sem Sameind hefur framkvæmt. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins mælir með því við alla að fara í örvunarskammt vegna þess að við það hækki magn mótefna „rosalega.“

Eitthvað hefur verið um að fólk mæti ítrekað í mótefnamælingar hjá Sameind enda dalar magn mótefna gjarnan með tímanum. Þá virðist mótefnamagnið aukast verulega eftir hvern skammt af bóluefni sem fólk fær.

Þannig mældist fólk eftir fyrsta skammtinn af bóluefni AstraZeneca almennt með um 20 til 80 einingar af mótefni á millilítra en 500 til 1.000 ef það hafði fengið fyrsta skammt af mRNA bóluefni frá Pfizer eða Moderna.

„Eftir seinni bólusetninguna voru flestir komnir upp í nokkur þúsund, mældust með á bilinu 1.000 til 10.000 [einingar af mótefni á millilítra] og það var að mati manna góð vörn gegn þeim afbrigðum sem voru þá á ferðinni,“ segir Sturla Orri Ar­in­bjarn­ar­son, sér­fræðing­ur í ónæm­is­fræði og fram­kvæmda­stjóri Sam­eind­ar.  

„Síðan kemur Ómíkron og þá telja menn að það þurfi um 40 sinnum hærri skammt af mótefnum til þess að verjast því, það er það sem rannsóknir sýna. Það sem við erum að sjá eftir þennan þriðja skammt er að fólk er að fara alveg upp í 25 til 50 þúsund einingar á millilítra og sumir eru að fara yfir 100.000 einingar.“

„Ég held að þrátt fyrir allt séu mótefnamælingar langbesti mælikvarðinn …
„Ég held að þrátt fyrir allt séu mótefnamælingar langbesti mælikvarðinn sem við höfum á það hversu vel fólk er hugsanlega varið,“ segir Sturla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Siemens hraðprófin ná Ómíkron

Sturla segir því að þriðji skammturinn hafi sannað gildi sitt.

„Það er alveg ljóst að þessi þriðji skammtur gerir gríðarlega mikið og eykur magn mótefna mjög mikið.“

Og talandi um Ómíkron, vangaveltur hafa verið á lofti um það hvort hraðpróf nái að greina afbrigðið. Sameind er á meðal þeirra aðila sem bjóða upp á hraðpróf. Sturla segir að samkvæmt nýrri rannsókn nái þau hraðpróf sem Sameind notar, hraðpróf frá Siemens, Ómíkron afbrigðinu „mjög vel.“

Því meira, því betra

Ekki er hægt að segja nákvæmlega hve mikið magn af mótefni fólk þarf til þess að verjast kórónuveirunni fullkomlega. Þannig er rannsóknarstofum í Bandaríkjunum ekki heimilt að segja nákvæmlega hve margar einingar á millilítra fólk þarf að mælast með til þess að geta talist fyllilega öruggt.

„Við getum samt alltaf sagt að þeim mun meira mótefni fólk mælist með, þeim mun betra,“ segir Sturla.

Eins og áður segir dalar magn mótefna með tímanum. Um það segir Sturla:

„Það er mjög misjafnt hversu vel fólk heldur í mótefni. Sumir halda sér þokkalega en aðrir fara dálítið hratt niður.“

Mæla líka með þriðja skammti fyrir fólk með þokkalegt mótefnamagn

En það er ekki einungis mótefnið sem getur varið fólk fyrir kórónuveirunni. Það getur sterk T-frumu svörun líka. Sturla segir að rannsóknir hafi sýnt að það sé mikil samsvörun á milli sterks T-frumusvars og mótefnasvars. Það er að segja, þetta tvennt fylgist almennt að.

„Ég held að þrátt fyrir allt séu mótefnamælingar langbesti mælikvarðinn sem við höfum á það hversu vel fólk er hugsanlega varið. Það er í raun ekki önnur mæling sem er mögulegt að taka þúsundir og hundruð þúsunda manna í. Þetta er eina prófið,“ segir Sturla.

Aðspurður segir hann að Sameind geti ekki sagt til um það hvort fólk sem fann fyrir aukaverkunum eftir bólusetningu sé með meira mótefni en þeir sem ekki fundu fyrir aukaverkunum. Eitthvað er um að fólk leiti til Sameindar til þess að athuga hvort það sé með nægilega mikið af mótefni og geti þá sleppt þriðju bólusetningunni.

„Ef fólk leitar ráða hjá okkur hvetjum við alla til þess að taka þriðja skammtinn vegna þess að það sem við sjáum er að mótefnin hækka svo rosalega við þriðja skammtinn. Við reynum að sýna fólki fram á það að þó það sé með þokkalegt magn af mótefnum mælum við eindregið með því að fólk fari í þriðja skammtinn,“ segir Sturla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert