Strætisvagnstjóri hyggst kæra líkamsárás

Hópur ungmenna veittist að vagnstjóra Strætó í Spönginni seint í …
Hópur ungmenna veittist að vagnstjóra Strætó í Spönginni seint í gærkvöldi. mbl.is/Hari

Hópur ungmenna veittist að vagnstjóra Strætó í Spönginni seint í gærkvöldi, með þeim afleiðingum að hann hann hlaut áverka af. Vagnstjórinn hyggst kæra árásina. Þetta segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við mbl.is.

Vagnstjórinn umræddi, sem var nýbyrjaður að keyra fyrir Strætó, þurfti í kjölfar árásarinnar að leita á neyðarmóttöku Landspítalans, þar sem hann reyndist vera nefbrotinn. Þá brotnaði framrúða vagnsins einnig í árásinni, að sögn Guðmundar. Vísir greindi fyrst frá.

Spurður segir hann enn verið að skoða tildrög árásinnar en að vagnstjórinn hyggist kæra.

Fleiri farþegar voru í vagninum þegar árásin átti sér stað og stendur þeim sem urðu vitni að henni áfallahjálp til boða, segir Guðmundur inntur eftir því.

Hann segist ekki vita til þess að lögreglan sé búin að setja sig í samband við Strætó vegna málsins.

„Ég geri þó ráð fyrir því að hún geri það á einhverjum tímapunkti. Það ætti að vera til myndefni úr vagninum sem ætti að hjálpa við rannsókn á málinu,“ segir hann.

Þá segir hann umrædda bifreið hafa verið í verktöku fyrir Strætó og því sé það undir verktakanum komið að sækja bætur vegna skemmda á bifreiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert