Stjórnarformaður Læknavaktarinnar kveðst ekki geta staðfest að um mistök hafi verið að ræða í tveimur aðskildum tilfellum, þar sem áhyggjum mæðra af ástandi sona sinna var vísað á bug af starfsfólki vaktarinnar. Kom síðar í ljós að áhyggjurnar voru reistar á réttmætum grun eftir að mæðurnar leituðu annað. Annar drengurinn var nálægt því að láta lífið.
„Við getum ekkert brugðist við svona einstökum málum. Það er trúnaður og við getum ekki svarað fyrir einstök mál. Ég meina, ef fólk er ósátt við afgreiðslu þá eru kvörtunarferlar. Það er hægt að kvarta til Læknavaktarinnar, það er hægt að kvarta til landlæknisembættisins,“ segir stjórnarformaðurinn Gunnlaugur Sigurjónsson inntur eftir viðbrögðum við frásögnum kvennanna.
Greint var frá því fyrr í dag að móðir átta ára drengs hefði næstum misst son sinn eftir að hafa fengið óviðunandi ráðleggingar frá Læknavaktinni. Þótti henni viðmót starfsfólksins einkennast af hroka en eftir að hafa lýst óbærilegum verkjum sonarins fékk hún þær ráðleggingar að gefa honum einfaldlega verkjalyf.
Karenína Elsudóttir, móðir drengsins, lét þó ekki þar við sitja heldur hringdi á Neyðarlínuna þegar ástand stráksins versnaði og sjúkrabíll kom skömmu seinna.
Kom síðar í ljós að drengurinn var með æðaflækju í litla heila sem hafði blætt úr og fékk hún þær upplýsingar að líklega hefði hann ekki lifað af, hefði hún ekki hringt á Neyðarlínuna.
Atvikið átti sér stað í apríl á þessu ári en Karenína ákvað að deila sögu sinni í kjölfar þess að hafa lesið frásögn annarrar móður sem hafði svipaða reynslu af Læknavaktinni. Hafði sú kona einnig upplifað hrokafullt viðmót þegar hún leitaði á Læknavaktina með eins árs gamlan son sinn og þótti henni hjúkrunarfræðingurinn á vakt ekki taka mark á áhyggjum sínum.
Það var ekki fyrr en hún fór með drenginn á Barnaspítalann að hann fékk loks almennilega skoðun sem leiddi í ljós að hann var með lungnabólgu og HMPV-veiruna. Sú frásögn birtist í Fréttablaðinu.
Aðspurður segir Gunnlaugur að ekki endilega hafi verið um mistök að ræða í þessum tilfellum. Annað málið sé nú komið á borð Læknavaktarinnar og hefur verið skoðað.
„Þið heyrið bara ákveðna frásögn og hvort þetta séu mistök eða ekki getur verið flókið og snúið að ákveða. Ég er ekki að segja að þetta séu mistök, en ég er heldur ekki að segja að þetta séu ekki mistök.“
Spurður hvort mál sem þessi komi oft fyrir, svarar Gunnlaugur að hvorki heilbrigðiskerfið né sjúkdómar séu einfaldir. Hann ítrekar að ekki sé hægt að svara fyrir einstök mál en að starfsmenn heilbrigðiskerfisins reyni að gera sitt besta.
„Og gera eins vel og þeir geta miðað við það sem þeir hafa úr að spila.“
Er mönnunarvandi að gera það að verkum að fólki er vísað frá, sem á erindi á Læknavaktina?
„Ef þú hefur fylgst með fréttum af heilbrigðiskerfinu þá náttúrulega eru ákveðin vandamál í íslensku heilbrigðiskerfi. Veruleg undirmönnun. Það voru nú fréttir um Læknavaktina fyrir einhverju síðan þar sem það var fjögurra tíma bið. Það er ekki að gamni okkar sem það er þannig. Álag ýtir undir að mistök séu gerð.“