Þegar Karenína Elsudóttir hringdi á Læknavaktina þann 22. apíl síðastliðinn vegna óbærilegra verkja sonar hennar var henni ráðlagt að gefa honum einfaldlega verkjalyf og sjá hvort ástandið myndi ekki lagast. Karenína sætti sig ekki við þau svör og hringdi í Neyðarlínuna. Stuttu síðar var sonur hennar kominn í aðgerð á heila. Hefði hún ákveðið að bíða eins og starfsmaður Læknavaktarinnar ráðlagði henni væri sonur Karenínu líklega ekki á lífi í dag.
Það var að morgni 22. apríl sem Alexander sonur Karenínu vaknaði öskrandi úr verkjum í höfði. Þegar hún reyndi að gefa honum verkjalyf kastaði hann ítrekað upp. Mæðginin voru í sóttkví og því ákvað Karenína að hringja í Læknavaktina til þess að fá ráðleggingar um það hvert hún gæti leitað með fárveikan son sinn.
Þar segir Karenína að hún hafi mætt hroka og því viðmóti að hún væri einfaldlega móðursjúk. Á þessum tímapunkti var sonur Karenínu, sem er átta ára gamall, svo verkjaður að hann sagðist vilja deyja.
„Hún skaut mig bara niður, sagði mér að koma verkjalyfjum ofan í hann og bíða svo bara í hálftíma til klukkutíma. En þetta sat svo í mér og ég var viss um að það væri eitthvað alvarlegt að svo ég hringdi beint í 112. Þeir sendu strax bíl af stað,“ segir Karenína í samtali við mbl.is.
Sonur hennar missti meðvitund og í stað þess að bíða eftir börum hljóp hún með hann niður af fimmtu hæð og niður í sjúkrabíl. Karenína mátti ekki fara með syni sínum í sjúkrabílnum vegna sóttkvíarinnar en fékk skömmu síðar símtal frá Barnaspítalanum. Þá tjáði læknir henni að um væri að ræða æðaflækju í litla heila sem blætt hafi úr.
Þegar Karenína mætti með barnsföður sínum á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi, þar sem sonur þeirra lá, var foreldrunum tjáð að um væri að ræða mjög alvarleg veikindi sem hann gæti dáið úr.
„Þá hrundi allt í rauninni. Ég hafði ekki ímyndað mér að þetta væri svona alvarlegt,“ segir Karenína.
Aðgerðin tók um fjórar klukkustundir en Alexander þurfti að dvelja í fjóra mánuði á spítala eftir hana. Í kjölfarið þurfti hann að læra að ganga, tala og borða upp á nýtt.
„Hann þurfti að fara í aðgerðir bæði hér og í Svíþjóð til þess að loka fyrir æðaflækjuna. Hann er í endurhæfingu og er byrjaður í skólanum aftur en hann er enn að glíma við eftirköst. Hann er búinn að standa sig eins og einhver mesta hetja sem ég veit um. Hann er alveg magnaður,“ segir Karenína.
Útlit er fyrir að sonur hennar muni ná að jafna sig að fullu með tíð og tíma.
Símtalið við Læknavaktina sat sérstaklega í Karenínu þar sem heilbrigðisstarfsmaður tjáði henni að það hefði bjargað lífi Alexanders að hún hafi hringt svo skjótt í Neyðarlínuna og að viðbrögð þar og hjá sjúkraflutningamönnum og öðru heilbrigðisstarfsfólki hefðu verið svo snör.
„Það hefði ekki mátt muna miklu meira,“ segir Karenína.
Karenína segist hafa gefið Læknavaktinni og Neyðarlínunni nákvæmlega sömu upplýsingarnar en fengið mjög ólík viðbrögð.
„Þetta móðursýkisdæmi sem er í gangi alltaf gegn mæðrum þarf að stoppa,“ segir Karenína um viðbrögðin frá Læknavaktinni. Hún telur ljóst að verr hefði farið ef hún hefði ákveðið að bíða og sjá eins og konan sem svaraði í símann þar sagði henni að gera.
„Hann hefði dáið,“ segir Karenína.
„Ég er ekki heilbrigðismenntuð en [starfsmaður Læknavaktarinnar] er það og á að vita að þegar barn er öskrandi úr verkjum og ælandi stanslaust að það sé eitthvað að. Hún hefði átt að benda mér á að hringja í 112.“
Karenína segir skrýtið til þess að hugsa að í símtalinu við Læknavaktina hafi hún sífellt verið að reyna að sanna að ástandið væri alvarlegt með því að nefna ítrekað að sonur hennar ætti afmæli þennan dag. Þá var í þokkabót sumardagurinn fyrsti svo hún benti konunni í símanum á það að hann væri ekki að þykjast til þess að geta sloppið við skóla.
„Ég man eftir því eftir á. Það var eins og undirmeðvitundin mín væri að reyna að sannfæra hana um að ég væri ekki móðursjúk því ég vissi að það væri eitthvað að syni mínum,“ segir Karenína.
Hún skilaði inn kvörtun til Læknavaktarinnar vegna málsins og fékk þau svör að þetta yrði tekið fyrir á fundi í haust með öllum hjúkrunarfræðingunum og hjúkrunarforstjóranum. Fyrir skemmstu las hún viðtal við aðra móður sem hafði slæma reynslu af Læknavaktinni.
„Þá titraði ég úr reiði,“ segir Karenína. „Það þarf að stoppa þetta. Maður á að geta hringt í Læknavaktina án þess að fá hroka og leiðindi.“
Karenína ítrekar að viðbrögð Neyðarlínunnar hafi verið til fyrirmyndar en hún hringdi þangað eftir þessa erfiðu atburðarás og hrósaði starfsfólkinu.