Mig óraði ekki fyrir þessum vinsældum, ég náði ekki að anna eftirspurn,“ segir Kristjana Björk Traustadóttir en hún hefur verið að hekla og selja sjálflýsandi snjókorn og jólastjörnur, endurskinsmerki sem hafa verið svo vinsæl að hún þurfti að loka fyrir pantanir.
„Ég skellti í námskeið svo fólk geti lært að hekla þetta sjálft, en ég ætla að opna fyrir pantanir aftur eftir jól, svo þeir sem vilja byrja nýja árið sýnilegir geti það,“ segir Kristjana sem býr í Hveragerði og unir þar hag sínum vel ásamt tveimur börnum og eiginmanni.
„Við höfum búið hér í fimm ár og líður mjög vel. Þetta er fjölskylduvænn bær, mikið næði og stutt í allt, við þurfum varla að setja bílinn í gang nema þegar við förum út úr bænum. Ég geng til vinnu, en ég er nýbyrjuð að vinna í nýju Mathöllinni hérna,“ segir Kristjana sem lauk nýlega seinna fæðingarorlofi sínu en hún opnaði vefsíðuna sína hringlandi.is einmitt í því orlofi. Á vefsíðunni selur hún m.a. garn og áhöld sem henta í vinnu með vattarsaum og orkeringu, sem eru ævafornar aðferðir, en hún deilir líka alls konar fróðleik um hannyrðir á instagramsíðu undir sama nafni.
„Mig langar að halda þessum gömlu hefðum við, kynna fólki þetta, þess vegna ætla ég að bjóða upp á námskeið í orkeringu og vattarsaumi á nýja árinu. Þá get ég ekki sent fólk frá mér án þess að bjóða því upp á vettvang til að kaupa efni og áhöld í þetta, sem er að finna á vefsíðunni minni. Í vattarsaum eru notaðar sérstakar flatar langar nálar sem ekki eru oddhvassar. Þær eru nú til dags aðallega úr tré, en eru líka til úr beini og stáli,“ segir Kristjana og bætir við að vattarsaumur sé miklu eldri aðferð en prjón.
„Þessi aðferð er talin hafa verið notuð á víkingaöld og fólk gerði sér þá klæði með vattarsaumi, sérstaklega á Norðurlöndunum. Þegar ég sé eitthvað víkingatengt í sjónvarpinu eða fer á víkingahátíðir, þá er mjög líklegt að ég sjái einhvern klæddan í vattarsaumaða flík, hvort sem það eru sokkar, vettlingar, húfur eða peysur.“
Kristjana segir að ekki sé hægt að hafa uppskriftir í vattarsaumi heldur þurfi að læra aðferðina.
„Maður fitjar upp og gerir útaukningu og úrtöku, og þá er hægt að gera hvað sem er úr afrakstrinum. Það sem kemur úr vattarsaumi er mjög slitsterkt, þykkt og öflugt. Orkering er aftur á móti afar fíngerð. Í hana þarf að nota áhald sem heitir skytta, lítið áhald sem passar inn í lófa og er með litlum goggi framan á eða heklunál. Garnið er haft í annarri hendi og því er vafið inn í skyttuna, svo tekur viðkomandi við að hnýta, því orkering byggist á hnútum. Orkering er með öðrum orðum hnýtingaraðferð og til eru tvær útfærslur, því það er líka hægt að orkera með orkeringarnál, en það er sjaldgæfara.“
Kristjana segir að úr því sem fólk býr til með orkeringu sé hægt að gera dúka, skartgripi, jólaskraut sem hægt er að stífa og hengja á jólatré, merkimiða fyrir pakka, eða hengja beint á pakka, hvað sem er.
„Möguleikarnir eru endalausir. Mér finnst til dæmis mjög fallegt að setja orkeringu framan á ermar, við hálsmál eða á fald pilsa. Orkering hefur verið notuð í ermar á peysufötum og í hálsmálið á skautbúningnum.“
Ekki er nákvæmlega vitað hvaðan þessi forna aðferð, orkering, kemur upphaflega, en Kristjana segir að ein kenningin sé sú að mögulega komi þetta frá nunnuklaustrum á Ítalíu.
„Aðrir segja að orkering komi út frá „macramé“, sem er mjög vinsælt í dag, en það er gróf hnýtingaraðferð, fólk hnýtir til dæmis blómapottahengi, veggskraut og fleira,“ segir Kristjana sem hlakkar til að halda líka námskeið í regnbogahekli eftir áramót.
„Ég hef heklað mjög mikið í meira en áratug og ég bý til hekluppskriftir sem ég sel á síðunni minni.“
Kristjana segist njóta þess mjög að sinna handverki, hvort sem hún er að kenna eða gera eitthvað sjálf.
„Ég hef alltaf verið að gera eitthvað í höndunum alveg frá því ég var lítil. Ég var endalaust að brasa, búa til hús og húsgögn úr pappír, klippa, líma og teikna. Ég menntaði mig í raun alveg óvart í textílmennt, því þegar ég hafði lokið menntaskóla hafði ég ekki hugmynd um í hverju ég vildi mennta mig. Þegar ég var að velta fyrir mér að fara í kennaranám í Háskóla Íslands datt ég inn á listgreinakennsluna þar, ég sá nám í smíðakennslu sem mér leist vel á. Það innihélt trésmíði, silfursmíði, gler og alls konar spennandi, svo ég skráði mig og mér fannst þetta geggjað skemmtilegt nám. Ég valdi þrjú kjörsvið í grunnnáminu, smíði, myndmennt og textílmennt, en í meistaranáminu mátti bara velja eitt kjörsvið. Þar valdi ég ekki smíðina vegna fyrirferðar allra stóru vélanna, ég óttaðist smá að missa alla fingur í þeim, svo ég valdi textílinn,“ segir Kristjana sem tók fyrra árið í meistaranáminu í Finnlandi.
„Þar voru örlög mín ráðin í þessum málum, því þar kynntist ég og féll fyrir þessum gömlu aðferðum, vattarsaumi og orkeringu. Ég hafði aldrei heyrt þessi orð áður en mér finnst mjög gaman að vinna með þessum aðferðum, því það er hægt að gera svo margt. Ég er með höfuðið fullt af hugmyndum en vantar helst tíma til að framkvæma þær allar.“
Framtíðarplön Kristjönu eru að bjóða upp á námskeið í fleiri fornum handverksaðferðum.
„Til dæmis knipl, en ég lærði það líka í Finnlandi. Mig langar líka að bæta við námskeiðum í vefnaði, ekki í vefstól, heldur minni vefnaði eins og spjaldvefnaði. Hringlandi er enn í mikilli þróun og ég er spennt að halda áfram með þetta allt saman. Þetta hringlandisbarn er svo til nýfætt og það á eftir að þroskast og vaxa.“