Sílamáfur merktur á Íslandi fannst í Marokkó á síðasta ári og hafði hann þá ferðast um 3.555 kílómetra. Fregnir voru í fyrra af 36 litmerktum íslenskum sílamáfum erlendis og eyddu þeir flestir vetrinum á hefðbundnum slóðum á Íberíuskaga.
Óvenjufáar langferðir voru meðal endurheimta ársins, að því er fram kemur í samantekt Guðmundar A. Guðmundssonar og Svenju N.V. Auhage hjá Náttúrufræðistofnun Íslands um fuglamerkingar 2020 og endurheimt merktra fugla. Þar kemur fram að rauðbrystingur hafði flogið 3.225 kílómetra þegar hann endurheimtist í Portúgal og tildra hafði lagt 2.682 kílómetra að baki þegar hún fannst, einnig í Portúgal.
Af öðrum ferðalöngum síðasta árs má nefna að stuttnefja hafði flogið tæplega 2.700 kílómetra við endurheimt í Kanada, skógarþröstur 2.632 kílómetra við endurheimt á Spáni og lóuþræll hafði lagt 2.416 kílómetra að baki við endurheimt í Frakklandi.
Það þykir ekki til sérstakra tíðinda að íslenskir skúmar hafi fundist í 14 löndum, meðal annars í Ungverjalandi, Ísrael, Brasilíu, Guyana, Venesúela og Alsír. Hefðbundnar vetrarstöðvar skúms eru víðs vegar um Atlantshafið norðan miðbaugs. Krían flýgur allra fugla lengst á vetrarstöðvarnar í hafísnum umhverfis Suðurskautslandið og hafa merktar kríur endurheimst í fjölmörgum löndum Vestur-Afríku.
Síðasta ár, 2020, var 100. ár fuglamerkinga á Íslandi og það 89. í umsjón Íslendinga. Afmælisárið markaðist af heimsfaraldri og óvenjulítið var merkt af fuglum, segir í skýrslunni. Sverrir Thorstensen var afkastamestur við fuglamerkingar með 2.269 nýmerkta fugla, í Fuglaathugunarstöð Suðausturlands voru merktir 2.164 fuglar og Björn Hjaltason merkti 885 fugla.
Mest var merkt af skógarþröstum í fyrra, 2.798 fuglar. Frá upphafi merkinga hafa verið merktir 85.585 snjótittlingar. Í næsta sæti er lundinn en alls hafa 81.683 lundar verið merktir og 75.962 skógarþrestir.
Til ársloka 2020 höfðu alls 58.900 íslensk merki endurheimst innanlands. 38.507 þeirra hafa fundist eða náðst aftur á merkingarstað en 20.392 í eins kílómetra fjarlægð eða meira frá merkingarstað. Alls hafa 8.114 íslensk merki endurheimst erlendis og auk þess hafa 4.705 erlend merki endurheimst á Íslandi.
Fjórar nýjar tegundir flækingsfugla voru merktar á síðasta ári. Þrír fuglanna náðust í Einarslundi við Höfn í Hornafirði; trjátittlingur, bláskotta og dulþröstur. Fjórða nýja tegundin var elrigreipur sem náðist í lundi á Hvalsnesi á Reykjanesskaga.
Greint er frá fleiri íslenskum aldursmetum í skýrslunni. Þannig var tilkynnt um stormsvölu, sem Jóhann Óli Hilmarsson merkti í Elliðaey, Vestmannaeyjum 19. júní 1991 og var hún þá að minnsta kosti ársgömul. Erpur Snær Hansen fangaði hana að nýju í net á sama stað 28 árum síðar, 24. júní 2019. Fuglinn var þá a.m.k. 29 ára og velti úr sessi stormsvölu sem Erpur merkti 20. ágúst 1988 og Ingvar endurveiddi á sama stað 7. ágúst 2016. Sá fugl var líka að minnsta kosti 29 ára, en dagsetningar gáfu til kynna að hann væri 18 dögum yngri.
Ritan sem Ævar Petersen merkti sem unga í hreiðri 18. júlí 1995 í Klofningi við Flatey fannst rekin nýdauð 21. júlí 2020 í Teinæringsvogi á Flatey. Hún var réttra 25 ára og aðeins 58 dögum eldri en sú sem hún velti úr efsta sætinu.