Í síðustu viku kom út ljóðabókin Ljós í myrkri eftir Baldvin Viggósson lögreglumann, sem lést í september síðastliðnum, 58 ára að aldri. Hann hafði þá háð baráttu við krabbamein sem stóð með hléum í alls 26 ár. Í lifanda lífi ætlaði Baldvin sér að gefa ljóðin sín út, en auðnast ekki að sjá þá ætlun sína verða að veruleika. Ljóðin eru frá aldamótum fram til ársins 2019.
„Mér fannst mikilvægt að bókin kæmi út, því í ljóðunum er mikilvægur boðskapur. Í raun er þetta í hnotskurn ævisaga mannsins míns síðustu árin sem hann lifði. Tilfinningarnar hans koma hér vel fram,“ segir Kristín Snorradóttir, eftirlifandi eiginkona Baldvins.
Baldvin Viggósson fæddist árið 1962. Hann gekk í lögregluna árið 1986 og starfaði þar allt upp frá því, lengst í umferðardeild. Kom þó annars að ýmsum verkefnum sem mótuðu viðhorf hans til lífs og tilveru, segir ekkja hans. Gerðu hann umburðarlyndan en æðrulausan.
„Vissulega reyndi Baldvin margt, svo sem að sonur okkar leiddist út í fíkniefnaneyslu og háði þar harðan slag. Baráttan við krabbamein var líka mikill skóli. Stríðið var langt en árið 2017 töldum við öll að sigur væri unninn, en einmitt þá hafði meinið tekið sig upp að nýju og var orðið ólæknandi. En þrautseigja míns manns var mikil. Þótt Baldvin væri í viðkvæmur maður og ljúfur var hann líka hálfgerður þurs og afar harður af sér. Gaf ekkert eftir gagnvart sjálfum sér í vinnu né öðru,“ segir Kristín.
„Baldvin orti mikið, en var laumuskáld. Að honum látnum fundum við fjölskyldan hér og þar miða og rissblöð með ýmsum ljóðum. Í tölvunni hans leyndist svo fullbúin ljóðabók, sem við gefum út í hans minningu,“ segir Kristín.
ljósið er minn andlegi styrkur
Birtan mér færir gæfu og gleði
upplyftir öllu í mínu geði.
(Baldvin Viggósson)