Þegar kórsöngurinn við lagið Hjálpum þeim, sem gefið var út til styrktar sveltandi börnum í Eþíópíu fyrir jólin 1985, var tekinn upp í Hljóðrita í Hafnarfirði, með þátttöku allra söngvaranna, mætti fréttastofa RÚV á svæðið; þar á meðal Maríanna Friðjónsdóttir pródúsent með kerti.
„Það var vel til fundið en Maríanna var búin að hugsa þetta lengra,“ rifjar útgefandi lagsins, Rúnar Sigurður Birgisson, upp nú 36 árum síðar.
„Morguninn eftir hringdi hún og bað mig um að kíkja upp í sjónvarpshús. Þegar þangað var komið var Maríanna útgrátin. Hún hafði þá setið við alla nóttina og farið yfir myndefni af sveltandi börnum í Afríku til að klippa saman við myndirnar úr Hljóðrita og var gjörsamlega búin á því. Úr varð þetta magnaða myndband og tárin komu líka fram hjá mér þegar ég sá afraksturinn. Maríanna á mikið lof skilið fyrir þetta framtak sem kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ætli þetta sé ekki eina tónlistarmyndbandið í heiminum sem leiðandi fréttastofa hefur framleitt?“
Þjóðin tók Hjálpum þeim með kostum og kynjum en gullplata fékkst vegna 10 þúsund seldra eintaka gegnum dreifingu Skífunnar. Rúnar segir upp undir annað eins hafa selst gegnum kirkjur og fleiri aðila. „Allt skilaði það sér með heiðri og sóma til Eþíópíu,“ segir hann.
Enda þótt Hjálpum þeim sé ekki jólalag í eiginlegum skilningi þá skýtur það alltaf upp kollinum á aðventunni. Rúnar fagnar því. „Þetta lag lifir með þjóðinni og minnir okkur á þá staðreynd að margir eiga bágt í heiminum – og það hefur ekkert batnað á þessum 36 árum. Betur má ef duga skal!“
Axel Einarsson samdi lagið en Rúnar settist sjálfur niður og byrjaði að föndra við textann enda þótt hann vissi innst inni að hann væri ekki rétti maðurinn í verkið.
„Þá gerist það að inn í stúdíóið gengur Jóhann G. Jóhannsson heitinn og heyrir gaulið í mér. Honum fannst þetta strax áhugavert og horfði lengi í augun á mér og spurði: „Má ég semja textann?“ Ég varð þetta líka feginn, að vera höggvinn niður úr snörunni. Og það af þessum turni í íslenskri tónlistarsögu. Það er bara eitt skilyrði, sagði ég við Jóa: Textinn þarf að vera klár á morgun vegna þess að þá förum við að hitta Bó. Jói samþykkti það.“
Daginn eftir sneri Jóhann aftur – ósofinn en með textann í handraðanum.
„Voðalega ertu þreytulegur, Jói minn, sagði ég. Ertu ekki vanur að hrista svona texta fram úr erminni? Hann brosti góðlátlega og viðurkenndi að þetta hefði verið aðeins meira mál. Enda mikið undir. Og þvílík smíð! Mín fyrstu viðbrögð voru að taka bara utan um Jóa. Þarna um kvöldið varð líka nafnið á laginu til – Hjálpum þeim. Ef þessi texti er ekki kominn inn í nýjustu útgáfu Sálmabókarinnar hvet ég þjóðkirkjuna til að ganga í málið. Þar á hann heima. Það er svo mikill kærleikur í þessu hjá Jóa. Hann tendraðist allur upp og svona átti þetta einfaldlega að vera.“
Nánar er rætt við Rúnar um Hjálpum þeim-ævintýrið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.