Rafræn kennsla í uppnámi eftir ákvörðun Persónuverndar

Sérfræðingar borgarinnar eru sagðir munu leggjast yfir niðurstöður stofnunarinnar.
Sérfræðingar borgarinnar eru sagðir munu leggjast yfir niðurstöður stofnunarinnar.

Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar barst fyrir helgi ákvörðun Persónuverndar í frumkvæðisathugun stofnunarinnar á Seesaw, gagnvirkri kennslulausn sem innleidd var í grunnskólum borgarinnar.

Um er að ræða kennslulausn sem býður nemendum upp á að vinna verkefni í skapandi umhverfi og fá leiðréttingar og endurgjöf kennara með stafrænum hætti, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

En þar segir einnig að borgin meti nú réttarstöðu sína í kjölfar ákvörðunarinnar, sem varðar innleiðingu á kerfinu í grunnskólum borgarinnar, en stofnunin telur að vinnsla upplýsinga um grunnskólanemendur hafi ekki farið fram í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga.

„Líklegt er að ákvörðun Persónuverndar hafi mikil áhrif á skólastarf víða um land,“ segir í tilkynningunni.

Leggist yfir niðurstöður stofnunarinnar

„Í ákvörðun Persónuverndar kemur fram að ekki sé hægt að taka mið af faglegu mati helstu sérfræðinga borgarinnar hvað varðar mikilvægi notkunar lausnarinnar við mat á nauðsyn vinnslunnar í skólastarfi. 

Í ákvörðuninni er áréttað að hægt er að bjóða nemendum að skila verkefnum rafrænt án þess að þeim sé safnað í tiltekið upplýsingakerfi og að þrátt fyrir að notkun slíkra kerfa sé í einhverjum tilvikum hentug þá felist ekki í því að hún sé nauðsynleg að mati stofnunarinnar. 

Skóla- og frístundasvið mun því þurfa að fá úr því skorið með hvaða hætti hægt er að innleiða stafrænar lausnir með lögmætum hætti í kennslu sem koma til móts við kröfur um nútímalega kennsluhætti og þarfir nemenda,“ segir í tilkynningunni.

Sérfræðingar borgarinnar muni leggjast yfir niðurstöður stofnunarinnar og meta hvaða þýðingu ákvörðunin hefur á innleiðingu á stafrænum lausnum í skólum borgarinnar.

Niðurstaðan tekin alvarlega

Tekið er fram að borgaryfirvöld hafi strax brugðist við ákvörðun Persónuverndar. 

Verið sé að undirbúa að taka kerfið úr allri notkun samhliða eyðingu persónuupplýsinga í samræmi við tilmæli stofnunarinnar.

„Reykjavíkurborg tekur niðurstöðu Persónuverndar alvarlega en telur þó jafnframt nauðsynlegt að koma því á framfæri að af niðurstöðunni leiðir að ljóst er að innleiðing upplýsingatæknilausna í umhverfi grunnskóla getur ekki farið fram í óbreyttu starfsumhverfi grunnskóla hér á landi sé tekið mið af mannafla og tækniþekkingu starfsfólks á þeim vettvangi. 

Þá þarf að fara vandlega yfir hvaða áhrif niðurstaðan hefur á starf í framhaldsskólum. Reykjavíkurborg mun því stofna til samráðs við samband sveitarfélaga og menntamálaráðuneytið um viðbrögð.“

Ekki hægt að innleiða í óbreyttu umhverfi

Haft er eftir Helga Grímssyni sviðsstjóra að niðurstaðan leiði til þess að skólum um land allt sé ókleift að innleiða tæknilausnir í kennslu í óbreyttu umhverfi.

„Þessi ákvörðun hefur áhrif á alla grunnskóla sem og sveitarfélög landsins. Það er mikilvægt að standa vörð um upplýsingaöryggi nemenda en kröfur Persónuverndar til starfsfólks grunnskólanna verða að vera raunhæfar og samræmi við persónuverndarreglugerðina og útgefnar leiðbeiningar stofnunarinnar. Þeim hefur Reykjavíkurborg fylgt eftir bestu getu og óskað eftir samvinnu við Persónuvernd í því skyni að standa sem best vörð um hagsmuni nemenda og starfsfólks,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert