Stefnir í varamannaþingflokk hjá Viðreisn

Sigmar Guðmundsson á þingi.
Sigmar Guðmundsson á þingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlit er fyrir að allnokkrir varaþingmenn hlaupi í skarð þingmanna Viðreisnar á mánudag en fjórir af fimm þingmönnum Viðreisnar eru smitaðir af kórónuveirunni. „Það stefnir í að þingflokkurinn okkar verði bara varamenn á mánudaginn,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar í samtali við mbl.is. 

Sigmar er smitaður, rétt eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, og Guðbrandur Einarsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmenn flokksins. Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður hefur ekki greinst smituð.

Þá eru nokkrir starfsmenn Viðreisnar einnig smitaðir af kórónuveirunni. 

„Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta getur farið svona grátt inn í okkar hóp. Við erum öll meira og minna þríbólusett,“ segir Sigmar. Hann getur sér þó til um ástæðuna:

„Þingflokksherbergið okkar er lítið og við erum mikið þar saman. Ég ímynda mér að það geri það að verkum að þetta hoppar svona glatt á milli okkar.“

Versti tíminn til að smitast

Eitthvað er um smit innan annarra þingflokka og hefur Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, til að mynda tilkynnt það opinberlega að hún sé smituð. Hún var ekki í aðstöðu til þess að veita viðtal þegar mbl.is leitaði eftir því.

Sigmar er sjálfur ekki mikið veikur en segir virkilega leiðinlegt að greinast smitaður svona skömmu fyrir jól. 

„Þetta er alveg versti tíminn. Maður verður í einangrun um jólin og ekki með fjölskyldunni. Það er ömurlegt.“

Uppfært með fréttum um smit hjá Þorbjörgu Sigríði kl. 12:33

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka