Guðni Einarsson
Alls voru 114 nemendur og starfsmenn Klettaskóla í Reykjavík í einangrun eða sóttkví í gær vegna Covid-19. Í einangrun voru 29, þar af 20 nemendur og 9 starfsmenn. Í sóttkví voru 85, þar af 33 nemendur og 52 starfsmenn, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Arnheiður Helgadóttir skólastjóri segir þetta ástand hafa útheimt mikla vinnu starfsmanna skólans og mikið álag á nemendur og fjölskyldur þeirra. Hefðbundið skólastarf var fellt niður í fyrradag, samkvæmt leiðbeiningum frá almannavörnum og skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Allir nemendur sem ekki voru þá þegar í sóttkví eða einangrun komu í skólann í fylgd forráðamanna til að gangast undir PCR-próf.
Starfsfólk frá almannavörnum mætti í skólann og setti upp skoðunarstöðvar til að taka sýni og hélt utan um framkvæmdina. Allir starfsmenn skólans, frístundar og félagsmiðstöðvar sem ekki voru í sóttkví eða einangrun voru einnig prófaðir. Fjögur ný smit greindust í gær og eru þau talin með í fyrrgreindum tölum.
Í gær var unnið að því að skipuleggja skólastarfið í ljósi aðstæðna. Síðasti kennsludagur fyrir jólafrí er á mánudag en þá verður ekki full kennsla. Þá verða „litlu jólin“ haldin í stofum nemenda í stað þess að vera með sameiginlega jólaskemmtun á sal.