Margt hefur breyst á þeim tæpu tveimur árum sem eru liðin frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Samkomutakmarkanir, grímuskylda og persónubundnar sóttvarnir eru ekki lengur framandi hugtök og aukinn tími heima við hefur kallað á aukna spurn eftir afþreyingu. Þar hafa hlaðvörp komið afar sterk inn og allt í einu þykir enginn maður með mönnum nema að fylgjast með nokkrum slíkum, hvort sem fólk gerir það í sóttkvíar-göngutúr eða bara heima um leið og það brýtur saman þvottinn.
Eitt allra vinsælasta hlaðvarp landsins er Draugar fortíðar sem Flosi Þorgeirsson, tónlistarmaður og sagnfræðingur, og Baldur Ragnarsson, tónlistarmaður með meiru, halda úti. Þeir félagar hafa framleitt yfir 80 þætti saman en í þeim rifjar Flosi upp ýmsa áhugaverða liðna atburði og ræðir þá við Baldur. Stemningin í Draugum fortíðar virðist höfða til margra því yfir sex þúsund manns eru í umræðuhópi hlaðvarpsins þar sem eru oft lífleg skoðanaskipti um efnistök þess. Flosi og Baldur spjalla líka heilmikið um það sem hefur drifið á daga þeirra sjálfra á milli þátta og láta hugann reika. Í þessu spjalli hefur Flosi til að mynda rætt glímu sína við þunglyndi og yndi af áfengislausum bjórum. Uppgangur áfengislausra bjóra hefur einmitt verið mikill og hraður á Covid-tímum og haldist að einhverju leyti í hendur við vinsældir Drauganna. Forsvarsmenn Borgar brugghúss sáu sér því fljótt leik á borði og fengu Flosa til að lesa inn á auglýsingar fyrir Bríó, fyrsta áfengislausa bjórinn á Íslandi. Það samstarf vatt nýlega upp á sig þegar Flosi og Baldur fengu að taka þátt í að brugga nýjan áfengislausan bjór hjá Borg sem kemur á markað milli jóla og nýárs.
„Ég hætti sjálfur að drekka áfengi fyrir rúmum 12 árum síðan en mér fannst áfram gaman að fara út að skemmta mér. Það pirraði mig hins vegar að það var ekkert annað í boði en sykraðir gosdrykkir sem ég hef ekki verið spenntur fyrir í seinni tíð. Tilkoma þessara áfengislausu bjóra var því himnasending fyrir mig,“ segir Flosi.
„Ég hef verið hrifinn af því sem Borg er að gera, ég kynntist þessum mönnum og þeir búa yfir ástríðu og sköpunargleði. Þetta samstarf leiddi til þess að ég þarf að þola það að heyra í sjálfum mér í auglýsingatímum þegar ég horfi á fótbolta og svo kom brugghúsið með þessa hugmynd að gera með okkur bjór.“
Lengra viðtal má nálgast í Morgunblaðinu í dag.